Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, gagnrýnir vegferð ríkisstjórnarinnar, og þá sérstaklega ráðherra Sjálfstæðiflokksins, þegar kemur að fjarskipta- og fjölmiðlamarkaðnum. Flokkurinn hafi haft frumkvæði að lagabreytingum og einkavæðingu á árum áður sem leiddu til samkeppni, aukinnar fjölbreytni og lægra verðs á umræddum mörkuðum en í dag sé ástandið þveröfugt.

„Enn eru það Sjálfstæðismenn sem veita málunum forstöðu en nú er verið að auka umfang hins opinbera,“ segir Heiðar í aðsendri grein á Vísi.

Hann bendir á að Ísland sé eitt Vesturlanda með ríkiseinokun á ljósleiðurum á milli landa. „Þrátt fyrir vilja einkaaðila til að koma þar inn og byggja á hagkvæmari hátt slíkar tengingar er þeim hrundið jafn harðan,“ segir Heiðar. „Einhver hefði haldið að það væri fengur að slíkri innkomu á íslenskan markað en það er öðru nær.“

Hann bendir á að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðuneyti fari með málefni ríkisfyrirtækisins Farice, sem rekur tvo sæstrengi gagnaflutninga milli Íslands og Evrópu. Þá hafi Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir „ekki látið þetta stórmál um samkeppni sig varða“ en Fjarskiptastofa heyrir undir hennar ráðuneyti.

„Klæðskerasniðu útboð að hagsmunum opinbers fyrirtækis“

Heiðar sakar svo Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra um að stýra „sóun og aðför að einkaaðilum og samkeppni“ þegar kemur að ljóðsleiðarastrengjum NATO.

Ljósleiðarinn, sem hét áður Gagnaveita Reykjavíkur, samdi nýverið við utanríkisráðuneytið um afnot af tveimur af átta ljósleiðaraþráðum í ljósleiðarastreng NATO til næstu tíu ára. Vodafone hafði rekið annan þeirra í tólf ár og þar haldið úti allri samkeppni við Símann og hýst aðila á borð við Vaktstöð siglinga, Neyðarlínuna, Nova og Landhelgisgæsluna.

„Í stað þess að bjóða út annan þráðinn og leyfa okkur að halda áfram okkar góðu starfi með hinn, sem hefði eflt enn frekar samkeppni með innkomu nýs aðila, er ákveðið að klæðskerasníða útboð að hagsmunum opinbers fyrirtækis, Ljósleiðarans.“

Í tilkynningu í síðstu viku sagði Ljóðleiðarinn að samningurinn við utanríkisráðuneytið bjóði upp á tækifæri við tengingu til heimila og fyrirtækja á svæðum sem ekki eru með ljósleiðaratengingu. Þá kom fram að Ljósleiðarinn, sem er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, sé nú að undirbúa hlutafjáraukningu.

„Það er alger tímaskekkja og sóun að draga ljós inná hvert heimili þegar 5G farsímatækni er komin í gagnið sem býður upp á 2Gb tengingu í gegnum loftið (6G enn meiri hraða) án alls jarðrasks á meðan Ljósleiðarinn býður í dag 1Gb,“ segir Heiðar

Hagur almennings versni hratt

Hann furðar sig einnig á að ríkið haldi enn úti Ríkisútvarpinu, RÚV, og standi þannig í samkeppni á auglýsingamarkaði, nú þegar aldrei hafa verið fleiri útvarps- og sjónvarpsstöðvar í rekstri ásamt því að dreifing á slíku efni er „nánast orðin almenn“. Auk þess telur Heiðar að þörf fyrir ríkisútvarpi vegna öryggissjónarmiða hafi horfið með tilkomu snjallsíma. Tilvist ríkisútvarps sé því „alger tímaskekkja.

„Ríkisfréttastofa minnir á liðna tíma og fyrirkomulag ráðstjórnarríkja. Að ríkið standi í samkeppni á auglýsingamarkaði hefur alltaf verið fráleitt.“

„Á tyllidögum er talað um sjálfbærni og minnkun á sóun en verkin sem hér eru nefnd eru dæmi um hið gagnstæða. Hagur almennings mun versna hratt við þessa þróun,“ skrifar Heiðar að lokum.