Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, segir að íslenskt stjórnkerfi taki sér allt of langan tíma þegar kemur að viðskiptum á borð við sölu Símans á Mílu til franska sjóðastýringafyrirtækisins Ardian.
„Íslenska stjórnkerfið tekur sér allt of langan tíma. Það virðist ekki átta sig á því að Ísland er í samkeppni um fjármagn við önnur lönd. Þegar við erum með viðskipti sem sannarlega gagnast landinu og almenningi mjög mikið, finnst mér ekki sanngjarnt að taka sér svona langan tíma,“ hefur Morgunblaðið eftir Heiðari.
Heiðar minnist þá á sölu Sýnar á „stál og steypu“ eða á óvirkum fjarskiptainnviðum til bandaríska fjárfestingarsjóðsins Digital Bridge á síðasta ári. Samkeppniseftirlitið hafi í því tilviki gjörnýtt alla fresti og ferlið hafi tekið þrefalt lengri tíma en gengur og gerist í öðrum Evrópulöndum.
Sjá einnig: Áhyggjur eftirlitsins „talsvert yfirdrifnar“
Kaupsamningurinn á milli Ardian og Símans var undirritaður í október 2021. Eftir áhyggjur stjórnvalda af áhrifum á þjóðaröryggi var undirritaður samningur á milli ríkisins og Mílu í desember og byrjun í þessa árs var bætt við ákvæðum í fjarskiptalög. Samkeppniseftirlitið tók málið formlega til skoðunar í byrjun febrúar og hefur til 18. ágúst að ljúka rannsókn á málinu eftir að Ardian óskaði eftir sáttaviðræðum.
Heiðar bindur vonir við að Ardian, Síminn og Samkeppniseftirlitið komist að samkomulagi svo af viðskiptunum verði. „Það er best fyrir Ísland.“
Helsta áhyggjuefni eftirlitisins lýtur að 20 ára heildsölusamningi á milli Símans og Mílu sem tekur gildi eftir að viðskiptunum lýkur. Heiðar telur ekki rökrétt að halda að viðskiptasamband Símans og Mílu verði of sterkt eftir söluna, sérstaklega miðað við núverandi samkeppnisumhverfi.