Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, keypti hlutabréf í fjarskiptafélaginu fyrir 115 milljónir króna rétt fyrir eittleytið í dag. Ursus, fjárfestingafélag Heiðars, keypti 2 milljónir hluti í Sýn, eða sem nemur 0,75% af hlutafé fjarskiptafélagsins, á genginu 57,5 krónur á hlut, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.

Ursus er næst stærsti hluthafi Sýnar og fer nú með 10,9% hlut sem er um 1,7 milljarðar króna að markaðsvirði. Gildi lífeyrissjóður er stærsti hluthafi Sýnar með 12,5% hlut.

Hlutabréfaverð Sýnar hefur hækkað um meira en 10% í viðskiptum dagsins. Kaupgengið í viðskiptum Heiðars er 9,5% yfir markaðsgengi Sýnar við lokun Kauphallarinnar í gær.

Viðskiptablaðið sagði frá því fyrr í dag að Tækifæri ehf., nýtt félag á vegum Arnars Más Jóhannessonar og Trausta Ágústssonar, hefði eignast eitt prósent hlut í Sýn sem er tæplega 150 milljónir króna að markaðsvirði.

Hlutafjárútboð Nova sem hófst í morgun kann að hafa áhrif á hlutabréfaverð Sýnar. Einn viðmælandi Viðskiptablaðsins á fjármálamarkaði benti á að EV/EBITDA, þ.e. hlutfall heildarvirðis á móti EBITDA-hagnaði, hafi verið 4,2 í lok maí en sama hlutfall var 8,2 hjá Nova, líkt og sjá má í fjárfestakynningu Nova. Sá samanburður gæfi til kynna að hlutabréf Sýnar hafi verið undirverðlögð að hans mati.

Úr fjárfestakynningu Nova.