„Ég hef um margra ára skeið barist gegn því að íslensk stjórnvöld hneppi íslenskan almenning í skuldaánauð,“ skrifar fjárfestirinn Heiðar Már Guðjónsson í þriðju grein sinni í opinberri deilu við Gylfa Magnússon, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra. Þeir tókust á í aðsendum greinum á síðum Fréttablaðsins í síðustu viku þar sem Heiðar gagnrýndi störf Gylfa á sínum tíma, s.s. í tengslum við Icesave-samningana, skuldaklafa Orkuveitu Reykjavíkur og björgun ríkisins á Byr og SpKef. Heiðar sagðist m.a. hafa sjálfur lagt út fyrir komu erlendra sérfræðinga í skuldamálum hingað til lands haustið 2008, þar á meðal Lee Buchheit, sem leiddi síðustu Icesave-samningana.

Í síðustu grein sagði Gylfi m.a. að viðskiptahugmynd Heiðars Más hafi verið í grófum dráttum sú að setja Orkuveituna og Reykjavíkurborg í þrot og endurreisa svo aftur, væntanlega gegn nokkurra milljarða króna þóknun. Áttu að koma að þessu ýmsir erlendir aðilar, ofurlögmenn og vogunarsjóðir, auk Íslendinga. Hann hafi ekki vitað hvernig  skipta átti þóknun fyrir verkið en hafi Hreiðar Már ekki ætlað sér neinn hlut, jafnvel fyrir útlagðan kostnað, þá sé það aðdáunarvert örlæti af hans hálfu.  Þá skaut hann nokkrum skotum að Heiðari, sagði hugmynd hans hafa fengið álíka góðan hljómgrunn og illaga um einhliða upptöku nýs gjaldmiðils. „Ég stöðvaði ekki viðskiptahugmyndina, hún var einfaldlega andvana fædd. Það virðist pennavinur minn eiga erfitt með að sætta sig við," skrifaði Gylfi og lagði til að þeir hefðu aftur samband eftir fimm til tíu ár.

Sakar Gylfa um útúrsnúninga

Hreiðar skrifar um málið á ný í Fréttablaðinu í dag.

„Því miður fæ ég engin efnisleg svör frá dósentnum heldur einungis útúrsnúninga og rangfærslur [...] Það er staðreynd að tugir milljarða af almannafé töpuðust út af mistökum Gylfa í samningagerð við kröfuhafa Landsbankans þegar hann tók gengislán bankans yfir með samningum 15. desember 2009. Það er staðreynd að tugir milljarða töpuðust þegar Gylfi ákvað að gefa SpKef og Byr nýtt fjármagn og undanþágu frá lögum um fjármálafyrirtæki sem jók á tap almennings vegna sjóðanna. Það er einnig ljóst að mat hans á Icesave er óbreytt, svo sérkennilegt sem það kann að virðast, og hann telur að skuldir Íslands séu sjálfbærar."

Hann heldur áfram:

„En Gylfi ákveður að taka sérstaklega fyrir OR, sem var bara eitt atriði af sex, og reyna að gera mig tortryggilegan vegna þess að ég hafði forgöngu um aðkomu sérfræðinga að skuldavanda fyrirtækisins. Hann meira að segja heldur því fram að ég hafi komið með vogunarsjóði að því máli sem muni græða milljarða, en hvort tveggja er uppspuni af hans hálfu. Því næst veltir hann fyrir sér ímyndaðri skiptingu á ímyndaðri þóknun, sem eru staðlausir stafir. Ekki verður önnur ályktun dregin af þessum furðulega málflutningi Gylfa en að hann kjósi að beina sjónum frá raunverulegum skuldavanda fyrirtækisins. Hvernig þessi framganga samrýmist störfum hans sem stjórnarmaður fyrirtækisins skal látið öðrum um að dæma."

Vanþekking Gylfa

Heiðar Már vísar fullyrðingum Gylfa á bug og segir hann því miður ekki skilja grunnatriði fjármála.

„Kröfuhafar fyrirtækja eiga ekki heimtingu á aðstoð ríkisvalds, þó að fyrirtækin séu í eigu sveitarfélaga. Kröfuhafar, hvort sem þeir eru vogunarsjóðir eða annars konar fjárfestar eða lánveitendur, eiga ekki rétt á því, umfram aðra, að geta gengið í gjaldeyrissjóð þjóðarinnar eða veikt krónuna kerfisbundið. Þó að Gylfi sé tilbúinn að hampa hagsmunum kröfuhafa á kostnað þjóðarinnar samrýmist það ekki fjármálafræði og engum sanngirnissjónarmiðum."