Heiðar Guðjónsson hefur gengið til liðs við hluthafahóp sjóðastýringarfélagsins Aldir ehf.  Félagið var stofnað í byrjun árs og fékk nýverið skráningu sem rekstraraðili sérhæfðra sjóða hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands.

Heiðar sagði sem kunnugt er upp sem forstjóri Sýnar í júlí í fyrra og hætti störfum í september. Á sama tíma seldi hann tæplega 13% hlut sinn í félaginu fyrir tæplega 2,2 milljarða króna. Ástæðan fyrir því að hann hætti störfum hjá Sýn voru heilsufarslegar en hann fékk blóðtappa í lungun.

„Síðan ég hætti hef ég fyrst og síðast verið að huga að heilsunni og reyna að jafna mig,“ segir Heiðar.  „Fyrir um mánuði fékk ég þau skilaboð frá lækninum að mér væri batnað og ég gæti farið að taka á því aftur.“

Heiðar beið ekki boðanna og verður hann stærsti hluthafinn sjóðstýringafélaginu nýja.

„Mér líst gríðarlega vel á Aldir,“ segir hann. „Þetta er mjög spennandi verkefni og teymið, sem hefur sannað sig yfir langt tímabil og í fjölbreyttum verkefnum, er frábært.“

Arnar Ragnarsson, Heiðar Ingi Ólafsson og Ari Ólafsson stofnuðu Aldir ehf. um síðustu áramót.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast viðtalið hér.