Bara tala, stafrænn íslenskukennari sem byggir á gervigreind og íslenskri máltækni, jók hlutafé sitt á dögunum um 77,7 milljónir króna.
Hlutafé var aukið um 106.045 krónur að nafnverði, með útgáfu nýrra hluta. Af þessu nýja hlutafé voru 69.927 krónur að nafnverði greiddar með reiðufé og seldar á genginu 786,5 krónur á hlut, sem nemur 55 milljónum króna.
Þá voru hlutir að nafnverði 36.118 krónur, seldir á genginu 629,24 krónur á hlut, nýttir til skuldajöfnunar við Ursus ehf., fjárfestingarfélag Heiðars Guðjónssonar, sem átti kröfu að fjárhæð 22,7 milljónir króna á hendur félaginu. Eignast Heiðar þá hið nýja hlutafé í Bara tala í stað kröfunnar.
Jón Gunnar Þórðarson er forstjóri og einn stofnenda Bara tala. Auk Jóns Gunnars eru stofnendur og eigendur Bara tala þeir Hilmar Birgisson, Guðmundur Auðunsson og Hervé Debono. Jón og Hilmar áttu í lok árs 2023 sitt hvorn 31,25% hlutinn í félaginu. Þá áttu Guðmundur og Hervé Debono sitt hvorn 18,75% hlutinn.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.