Stjórnendur fjarskipta- og fjölmiðlasamstæðunnar Sýnar sögðu á markaðsdegi fyrir þremur vikum síðan að fjölmiðlar þess og Vodafone hafi í raun aldrei sameinast að fullu. Heiðar Guðjónsson, sem var forstjóri Sýnar á árunum 2019-2022 og stjórnarformaður frá árinu 2014 þar áður, segist ósammála þessu mati í nýjum hlaðvarpsþætti Chess after Dark.

„Fjölmiðlahlutinn var keyptur í árslok 2017, ég hætti sumarið 2022. Það var búið að reka þetta saman í fimm ár. Þannig að ég get ekki verið sammála þessu,“ sagði Heiðar.

„Þarna var verið að vinna saman að krosssölu. Það var búin til ein auglýsingasala fyrir alla miðlana. Það var ákveðið frekar en að einhver væri bara að selja fyrir útvarpið, að hann væri líka að selja fyrir sjónvarpið og Vísi. Þá var ekki einhver markaðsstjóri að fá þrjú símtöl frá Suðurlandsbraut heldur frá einum aðila. Þá er hægt að tvinna þetta betur saman og taka saman í markaðsherferð o.s.frv. Þannig að auðvitað var þetta gert.“

Á markaðsdeginum lýsti Herdís Dröfn Fjeldsted, sem var ráðin forstjóri Sýnar í janúar 2024, því að hún hafi orðið mjög hissa þegar hún hóf störf hvernig hún upplifði að Sýn væri í raun eins og mörg fyrirtæki. Starfsfólk hafi ýmist talað um að það ynni t.d. fyrir Stöð 2 eða Vodafone fremur en Sýn.

Heiðar sagði það hafa verið meðvituð ákvörðun að vörumerkið Sýn væri einkum fyrir samstæðuna sem skráð félag. Að öðru leyti hafi félagið fremur vilja ýta undir vörumerkin sín.

„Sýn á mjög vel metin vörumerki eins og Vodafone á Íslandi, Stöð 2, Bylgjuna og Vísi. Með því að tala meira um vörumerkin sín, þá auglýsir þú þau meira. Það er þannig að þegar þú ert með fólk í vinnu og það er sérstaklega stolt af sínu starfi og sínu vörumerki, þá ertu að tapa miklum verðmætum með því að hætta að tala um vörumerkin og tala alltaf um Sýn,“ segir Heiðar.

„Ef þú ferð í eitthvað fjölskylduboð og segir „bíddu Gummi Ben, vinnur þú hjá Sýn? Ert þú ekki hjá Stöð 2 Sport? Og Heimir Karl, vinnur þú hjá Sýn?““

Markmið um að koma genginu upp í 150 krónur

Annar umsjónarmanna hlaðvarpsins spurði Heiðar út í laka rekstrarniðurstöðu Sýnar upp á síðkastið og hvort hann hefði gert gott mót með að selja eignarhlut sinn í félaginu sumarið 2022 samhliða starfslokum sínum.

Heiðar sagði að þegar hann hætti um um mánaðamótin júlí/ágúst 2022, þá hafði félagið fyrr það sumarið sett sér markmið um að koma gengi hlutabréfa Sýnar upp í 150 krónur á hlut. Til samanburðar seldi hann eignarhlut sinn á genginu 64 krónur í sölunni í lok júlí 2022.

„Þetta var út af því að á þessum tíma sáum við fram á það að sjóðstreymið gæti meira en tvöfaldast. Á þessum tíma var fyrirtækið að hagnast um u.þ.b. hundrað milljónir á mánuði. Núna er það að tapa sirka hundrað milljónum á mánuði. Það útskýrir auðvitað að gengisfallið,“ segir Heiðar og bætir við að á sínum tíma hafi Sýn haft augun á því að koma hagnaði á mánuð upp í ríflega 200 milljónir króna.

„Það sem gerðist veturinn 2022 var að mér sýndist fyrirtækið fara í svona verðstríð á fjarskiptamarkaði. Síðan hafa verið keyptir mjög dýrir efnisréttir og það auðvitað bara hækkar kostnaðinn. Þannig að ef þú ferð í verðstríð þá lækkar þú tekjurnar og ef þú bætir í efnisréttina þá eykur þú kostnaðinn. Þá er náttúrulega dálítið lítið eftir til skiptanna.“

Verður klippt á innlenda dreifingaraðila að enska boltanum?

Heiðar var einnig spurður út í fjárfestingu Sýnar til að tryggja sér sýningarrétt á enska boltanum frá tímabilinu 20256 til 2027/28. Talið er að Sýn greiði allt að 1,4 milljarða króna á ári fyrir sýningarréttinn.

Heiðar sagðist telja að til framtíðar verði svona efni dreift í auknum mæli beint í gegnum snjalltæki án aðkomu innlends dreifingaraðila. Ef tæknibreytingarnar geri það að verkum að eigendur efnisins úti í heimi þurfi ekki lengur samstarfsaðila í hverju landi, þá klippi þeir hann auðvitað bara út og dreifa efninu með öðrum hætti.

„Þú þarft ekki innlendan dreifiaðila sérstaklega. Í gamla daga varst þú ekki með þennan hraða sem gat bara streymt hverjum leik fyrir sig í hvaða viðtæki sem er, hvort sem það er þráðlaust sjónvarp heima, sími, spjaldtölva eða eitthvað annað.

Ef þú ert Premier League, NBA eða eitthvað svona stórt vörumerki alþjóðlega í íþróttum, þá þarft þú ekki að vera með innlendan dreifingaraðila. Þú getur bara farið beint í viðskiptavininn. Þannig að ég sá alltaf fyrir mér að Premier League, alveg eins og NBA er með „League Pass“, að það kæmi eitthvað slíkt. Svo myndir þú bara gera samninga við einhvern eins og Google, Facebook og Amazon sem eru með þvílíkt auglýsingavægi á hverjum markaði fyrir sig, að þeir gætu bara keypt auglýsingaplássin á hverjum stað fyrir sig.“

Arsenal og Tottenham aðdáendur mjög verðteygnir

Út frá mælingum Gallup á vinsælum íþróttamiðlum á borð við 433.is og íþróttasíðum mbl.is og Vísi þá sagði Heiðar að áætla megi að mengi mögulegra áskrifenda hér á landi að enska boltanum sé í kringum 30 þúsund. Það sé sirka hámarkið á fjölda áskrifenda sem íslenskir dreifingaraðilar geti selt áskriftir að enska boltanum til.

„Mér sýnist það vera sirka raunin. Þá fer maður að spyrja sig hvað eru þeir tilbúnir að kaupa þetta á háu verði. Arsenal aðdáendur eru mjög verðteygnir. Tottenham aðdáendur er líka sérstaklega verðteygnir, smásálarlegir. En Liverpool aðdáendur þeir voru tilbúnir að fórna þremur puttum fyrir þetta.“

Heiðar ræðir um Sýn og enska boltann frá 1:02:55-1:11:40.