„Frá mínum bæjardyrum séð, þá get ég ekki séð hvernig þetta gagnast fyrirtækinu,“ segir Heiðar Guðjónsson, fyrrum forstjóri Sýnar, í hlaðvarpsþættinum Chess after Dark, spurður um mögulega sölu félagsins á hluta fjölmiðlarekstrar þess.
Stjórn Sýnar tilkynnti um miðjan desember síðastliðin að hún hefði ákveðið að taka framtíðareignarhald og stefnu rekstrareiningarinnar Vefmiðla og útvarps til skoðunar. Umrædd rekstrareining heldur utan um fjölmiðilinn Vísi og útvarpsstöðvarnar Bylgjuna, FM957 og X-ið ásamt Já.is og Bland.is.
Heiðar lét af störfum sem forstjóri Sýnar sumarið 2022 eftir að hafa gegnt lykilhlutverki hjá félaginu í áratug — lengst af sem stærsti hluthafinn, stjórnarformaður í fimm ár og forstjóri frá árinu 2019. Sýn gekk seint á árinu 2017 frá samningum um kaup á Tali og fjölmiðlum á borð við Vísi, Stöð 2 og Bylgjunni af 365 miðlum.
„Ég vann þarna með frábæru fólki og fannst okkur takast vel til að samtvinna reksturinn. Þannig að ég veit ekki nákvæmlega hvers vegna það ætti að skilja þetta í sundur. Vonandi er bara fólk þarna sem veit meira og sér betur í gegnum þetta heldur en ég,“ segir Heiðar.
„Þeir hljóta að ímynda sér að reksturinn sé meira virði í sitt hvoru lagi.“
Heiðar telur að það sé margt sem styðji við hvort annað í rekstri sameinaðs fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækis. Samlegðartækifæri felist t.d. í sameiningu á yfirstjórn og ýmsum tekjustoðum.
„Að vera með eitt auglýsingateymi fyrir þetta allt saman, að geta boðið upp á heildarbirtingaráætlun gagnvart viðskiptavinum á einum stað. Það er þægilegra fyrir viðskiptavininn og ódýrara fyrir okkur.“
Eins nefnir hann að þetta fyrirkomulag styðji við kross-sölu innan samstæðunnar. Til að mynda sé auðveldara fyrir auglýsendur að færa fjarskiptaviðskipti sín yfir til Sýnar og öfugt.
Sameiginleg sýn mikilvæg
Heiðar lét af störfum sem forstjóri Sýnar sumarið 2022 að læknisráði. Samhliða því seldi hann allan 12,7% hlut sinn í félaginu fyrir ríflega 2,2 milljarða króna til Gavia Invest sem er í dag stærsti hluthafi Sýnar.
Gengið í viðskiptunum var 64 krónur á hlut en til samanburðar er markaðsverð hlutabréfa Sýnar 48,4 krónur á hlut í dag, tæplega fjórðungi lægra.
Spurður um þróun hlutabréfaverðs Sýnar frá sölunni, þá rekur Heiðar hana að stærstum hluta til ytri aðstæðna á hlutabréfamörkuðum sem erfitt var að sjá fyrir.
„Síðan auðvitað skiptir máli að það sé friður á stjórnarheimilinu, það skiptir máli að það sé sameiginleg sýn um framtíðina og að það sé trúverðug áætlun. Ég tel að Sýn geti alveg komið sér í þá stöðu, bara núna í sumar, að vera með eitthvað slíkt og átt bjarta tíma fram undan.“
Fjarskiptageirinn besti bransi Íslands
Þegar talið barst að fjarskiptageiranum segir Heiðar að þar ríki frábær samkeppni á heimsvísu. Hann hrósaði þó sérstaklega íslensku fjarskiptafyrirtækjunum.
„Út af hverju eru ekki fjarskiptafyrirtækin og símabransinn hampað sem besta bransa Íslands? Þú ert kominn með 5G samband í yfir 95% af byggðu bóli á Íslandi, sem er hæsta [hlutfallið] í Evrópu. Við erum með ljósleiðaratengdasta lands Evrópu. Við erum samt strjálbýlasta og eitt fámennasta land Evrópu, fyrir utan einhver örríki eins og Andorra og San Marinó.“
Heiðar segir að hér sé búið að koma upp flóknu fjarskiptakerfi sem hefur gert fyrirtækjum kleift að bjóða upp á frábæra þjónustu á mun lægra verði en í evrópskum þéttbýliskjörnum, þótt að þar ætti að vera hægt að reka umtalsvert hagkvæmari rekstrareiningar.
„Þess vegna, ef þú skoðar vísitölu neysluverðs, að fjarskiptahlutinn bara á síðustu 10 árum er búinn að lækka örugglega um hátt í 90%, sem sagt útgjöld heimila til fjarskipta. Þá er ekki almennilega leiðrétt fyrir því hvað gæðin hafa aukist, hvað útbreiðslan er orðin meiri, þéttni kerfisins betri og hraðinn miklu meiri.
Þannig að ef það er eitthvað sem hefur lagt til verðhjöðnunar þá eru það þessi símafyrirtæki sem eru að keppa hér á landi.“
Heiðar talar um Sýn, mögulega sölu fyrirtækisins á hluta fjölmiðlarekstrarins og um fjarskiptageirann frá 25:20-34:25.