Heiðar Guðjónsson, fráfarandi forstjóri Sýnar, segir að til að stuðla að því að markaðurinn geti sinnt verðmætasköpun þá þurfi stjórnvöld að viðurkenna að þeirra hlutverk sé að skapa sanngjarnt samkeppnisumhverfi. Í nýjasta hlaðvarpsþætti Einnar pælingar segir hann að stjórnvöld þurfi að átta sig á því að verðmætasköpun og allur varanlegur hagvöxtur verði til hjá einkaaðilum.
„Það voru ýmsir eins og Kristrún Frostadóttir, sem er hagfræðingur, að kalla eftir því að í upphafi heimsfaraldursins yrði ríkisstarfsmönnum fjölgað. Hvað átti síðan að gera þegar heimsfaraldurinn gekk yfir, reka þá alla? Hvað áttu þeir þá að gera?“ spyr Heiðar og bætir við að það sé ekkert jafn varanlegt og tímabundin ríkisúrræði.
Á meðan faraldurinn stóð yfir varaði Kristrún, sem bauð sig fram til formanns Samfylkingarinnar í síðustu viku, stjórnvöld við að ráðast í niðurskurðaraðgerðir, ekki síst með atvinnuleysi í huga. Þá hefur Kristrún reglulega gagnrýnt aðgerðir Seðlabankans í byrjun faraldurs en hún vildi fremur sjá öflugri sértækar aðgerðir fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem urðu fyrir verulegu tekjufalli heldur en að ráðast í miklar vaxtalækkanir.
„Síðan gengur heimsfaraldurinn yfir og þá er Kristrún enn þá að tala um það að þetta hefði átt að vera lausnin frekar en að lækka vexti. Þetta er gjörsamlega galið vegna þess að auka neyslu – svona keynesísk hugmyndafræði að viðhalda neyslustigi - er náttúrulega bara þvæla. Þetta er eins og að pissa í skóinn sinn.“
Heiðar segir að áherslan eigi að vera að auka fjárfestingu og nýsköpun, ekki neyslu. Nýsköpun verði ekki til án fjárfestingar, þar sem einhverjir aðilar neita sér um neyslu í dag til þess að fá meiri neyslu í framtíðinni. „Þetta eru ekki flókin sannindi.“
„Svona Keynesistar eins og Kristrún, fólk í Samfylkingunni og vinstra fólk almennt, það skilur þetta ekki,“ segir Heiðar. „Það skilur ekki að þú þurfir að fórna einhverju í dag til að fá eitthvað betra í framtíðinni. Það vill hins vegar setja auknar byrðar á fólk í dag til að fá einhver atkvæði, með því að skuldsetja ríkissjóð, setja fleiri á ríkisjötuna, búa til fleiri ríkisstarfsmenn til að gera guð má vita hvað.
Svo vita þeir að þessar skuldir verða ekki greiddar af þeim sem fengu að njóta neyslunnar í dag heldur af einhverjum framtíðarkynslóðum. Þetta er fólk sem er fullt af réttlætiskennd, hvaða réttlæti er í þessu?“
Af hverju gleyma Keynesistar 20% hámarkinu?
Þáttastjórnandinn spurði Heiðar hvort það væri ekki rétt að auka ríkisútgjöld með það í huga að fjárfesta í framtíðarkynslóðum til að styðja við atvinnuþátttöku og verðmætasköpun.
„Þetta er alltof kunnuglegur söngur,“ segir Heiðar. „Þetta er þannig að þú þarft að fjárfesta í einhverju sem er framleiðið. Það er ekki fjárfesting að neyta einhvers. Að auka útgjöld ríkisins bara til að borga einhverjum bætur – það er þetta gamla [spakmæli] hjá Lao Tzu: Gefðu manni að borða og þú fæðir hann í einn dag. Kenndu honum að veiða og þú fæðir hann um alla eilífð. Það þarf að vera langtímahugsun í þessu.“
Heiðar segist hlynntur velferðarkerfi en telur marga þó farna að blanda saman velferðarkerfi og Keynesisma, sem gangi út á miðstýringu.
„Þegar [John Maynard] Keynes kom fram með sínar hugmyndir, þá voru útgjöld hins opinbera af þjóðarframleiðslu í Bandaríkjunum og í Bretlandi innan við 8%. Keynes sagði að það ætti að vera hart stopp í 20%. Á Íslandi erum við komin langt upp fyrir 40%. Þeir sem segjast vera Keynesistar, hvers vegna hlusta þeir ekki á Keynes þegar hann sagði að það eigi að vera hart stopp í 20%?“ spyr Heiðar.
Sjá einnig: Umræðan viljandi rugluð?
„Þeir og hinir sömu eru bara að nota Keynes og hans hugmyndir út af því að hann var að tala fyrir auknum ríkisútgjöldum [...] Fólk viljandi ákveður að gleyma þessu 20% hámarki og segir að það sé bara alltaf gott að auka ríkisútgjöld.“
Fleiri einstæðar mæður á grautafæði
Heiðar minnist þess að hafa alist upp í Svíþjóð og unnið í viðskiptaráðinu í Gautaborg árið 1995. Ríkisútgjöld í Svíþjóð hafi verið aukin verulega á þessum tímum. Svíar hafi þá verið í góðri stöðu hvað innviði varðar. Þeir hafi m.a. átt stærstu stálnámu Evrópu í Kiruna og fjölda iðnfyrirtækja sem hjálpuðu til við að endurbyggja Evrópu eftir seinni heimsstyrjöldina og nutu góðs af. Heiðar segir Svía því hafa getað leikið sér með sósíalískar hugmyndir en þær hafi á endanum beðið skipbrot.
„Það var frægt þegar Astrid Lindgren, sem er einn af mínum uppáhalds rithöfundum, borgaði 105% af launum sínum eitt árið í skatta og skrifaði þá grein í blaðið – fyrsta skiptið sem hún skrifaði svona aðsenda grein – og spurði bara ‚hvert er þetta komið?‘. Þá vaknaði svolítið sænska þjóðin. Svo er það Göran Persson og sósíaldemókratarnir sem voru búnir að reka þetta kerfi í þrot. Sænska bankakerfið fór alveg á hliðina 1992-1994.
Þá neyddust þeir bara til að vinda ofan af þessu. Þeir áttuðu sig á því að það eru ákveðin takmörk fyrir því hvað ríkisútgjöld geta verið mikil. Hvað þáttur hins opinbera í kerfinu getur verið mikill án þess að það fari að bitna verulega á kerfinu.“
Heiðar segir sögu sömu sé að segja um Kanada á þessum árum og þar hafi að lokum einnig þurft að vinda ofan af ríkisútgjöldum.
„Það er fróðlegt, því þú ert að tala um að einhverjir Keynesistar eru alltaf að verja frekari ríkisútgjöld og bera það fyrir sig að það sé einstæð móðir sem er að borða graut í hvert mál. Það verða bara enn þá fleiri einstæðar mæður að borða graut í hvert mál ef hugmyndir þeirra fengju fram að ganga.“
Heiðar talar um hugmyndafræði Kristrúnar Frostadóttur og Keynesista frá 45:10-53:40.