Umræða um leiguþak og -bremsu fór af stað á ný á dögunum eftir fjölmiðlaumfjöllun um hækkun á húsaleigu hjá Ölmu leigufélagi. Meðal þingmanna sem hafa kallað eftir slíkum inngripum á leigumarkaði eru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra og Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar.
„Þetta er popúlismi, þetta fólk á að vita betur. Þetta er ekki lausnin,“ segir Heiðar Guðjónsson fjárfestir í nýjasta hlaðvarpsþætti Chat after Dark. „Sérstaklega eins og Lilja Alfreðs sem var að vinna í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, er lærð í hagfræði og bjó í Kóreu.“
„Auðvitað væri það draumur ef allir gætu leigt eða keypt sér íbúð fyrir nánast ekki neitt en sá draumur verður aldrei að veruleika, því miður. Við þurfum bara að sætta okkur við það og vinna út frá því hvernig hlutir raunverulega ganga fyrir sig en ekki hvernig við viljum að þeir gangi fyrir sig.“
Leiguþak og önnur sambærileg inngrip eigi sér langa sögu. „Þetta hefur alltaf verið gjörsamlega misheppnað, að ætla sér að hafa áhrif svona. Við höfum mýmörg dæmi um leiguþak og svona inngrip.“
Frægasta dæmið sé frá Hong Kong á áttunda áratugnum. Eftir mikla hækkun á leiguverði var ákveðið að setja á leiguþak. Í kjölfarið dróst verulega úr byggingaframkvæmdum. Stjórnvöld brugðust við þeirri þróun með því að breyta reglugerðum á þann veg að nýjar byggingar yrðu undanþegnar leiguþakinu.
„Þá gerðist það á fimm árum að yfir helmingur allra íbúðabygginga í Hong Kong var rifinn og byggðar voru nýjar byggingar. Sóunin sem felst í þessu er bara gígantísk.“
1-5 stjörnu íbúðir
Heiðar segir að helsta ástæðan fyrir háu leiguverði sé lítið framboð af íbúðum sem skýrist af skorti á lóðum. Auk þess sé ógrynni af íbúðum leigður út til ferðamanna. Þá sé byggingatími á Íslandi allt of langur, sem skýrist m.a. af skipulagsferli og öðru slíku.
„Ef við ætluðum einhvern veginn að varanlega hafa áhrif þá þyrftum við að búa til 20-30 ára plan með nýjum hverfum, með forsjálni að skipuleggja þannig að umferðin gangi vel. Fólk vilji þar af leiðandi búa í nýju hverfunum.“
Hverfin þurfi einnig að vera skipulögð þannig að öll hús séu ekki eins. Hann tekur sem dæmi að hótel séu almennt flokkuð frá einni til fimm stjarna, með vísan til gæða og verðs.
„Hérna eru allar íbúðir byggðar eins. Hvers vegna mega ekki vera frá eins og upp í fimm stjörnu [íbúðir]? Þá ertu bara með minni kvaðir. Það er út af einhverri reglugerð að það þarf að vera lyfta í öllum húsum og það þarf að vera fullt aðgengi fyrir fatlaða að öllum íbúðum [...] Þetta er svona byggt að allt á að henta öllum.“
Heiðar segir að miðað við kostnaðinn sem falli til af slíkum reglugerðum, þá sé í raun hagfelldara fyrir hagkerfið og hið opinbera að þeir sem þurfi aðgengisíbúðir fái þær nánast gefins ef aðrar íbúðir fái að fylgja hefðbundnari stöðlum.
Þétta byggð án þess að meta innviðaþörf
Heiðar ræddi einnig stuttlega um þéttingu byggðar og lýsti yfir áhyggjum að ráðist hafi verið í að þétta byggð án þess að meta áhrif á innviði á þeim svæðum.
„Hversu umhverfisvænt er það að vera með heilu og hálfu hverfin þar sem öll klósett eru stífluð vegna þess að það er ekki búið að uppfæra fráveitukerfið?“
Hann tekur Borgartúnið sem dæmi. Þar hafi áður verið ýmis lítil iðnaðarfyrirtæki – t.d. bílaþvottastöðvar og viðgerðarverkstæði – en í dag sé búið að reisa hótel og íbúðablokkir með mun fleiri klósettum en í hefðbundnu atvinnuhúsnæði.
„Kerfið ræður ekki við þetta. Það er meira að segja þannig að húshitunarkerfið ræður ekki við þetta,“ segir Heiðar. Hann bætir við að það sama eigi við um hitavatnslagnirnar sem liggja þarna og rafkerfið.
Þáttastjórnendur minntust í kjölfarið á fréttir um að Veitur tóku til skoðunar í síðustu viku að loka fimm sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu. Þær sundlaugar sem skoðað var að loka tímabundið voru Sundhöll Reykjavíkur, Vesturbæjarlaug, Dalslaug, Suðurbæjarlaug og Ásvallalaug.
„Þið sjáið hvar þær eru. Það er alls staðar þar sem búið er að vera að þétta byggð og annað slíkt. Þetta er svo mikil vitleysa,“ segir Heiðar.
Heiðar ræðir um leiguþak og fasteignamarkaðinn frá 23:30-28:45.