Náttúru­ham­fara­trygging Ís­lands (NTÍ) áætlar að metinn heildar­kostnaður sem falla mun á stofnunina vegna jarðhræringa á Reykja­nes­skaga verði 15,4 milljarðar króna, sam­kvæmt ný­birtri skýrslu for­sætis­ráðherra um helstu verk­efni og framtíðar­horfur á svæðinu.

Í skýrslunni er tekið fram að um þetta ríki þó enn tals­verð óvissa. Sam­kvæmt upp­lýsingum frá Sigurði Kára Kristjáns­syni, stjórnar­for­manni NTÍ, voru eignir sjóðsins metnar á 60 milljarða í lok janúar.

Tjóna­bætur sem þegar hafa verið metnar vegna jarðskjálfta­at­burðarins sem hófst í nóvember í fyrra nema um 6,8 milljörðum og þar af hafa um 5,3 milljarðar þegar verið greiddir út í tjóna­bætur vegna skemmda af völdum jarðskjálfta, segir í skýrslunni.

Það sem út af stendur, þ.e. metnar útistandandi tjóna­bætur, nema ríf­lega 1 milljarði króna.

Þá hefur NTÍ fært 4,1 milljarð til hliðar vegna til­kynntra tjóna sem óvissa ríkir um.

Sú óvissa varðar einkum ástand á burðar­fyllingum og undir­stöðum á all­nokkrum hús­eignum. Ráðstöfun vegna ótil­kynntra tjóna, sem nú eru metin á 3,5 milljarða, er jafn­framt varúðarfærsla sem er reiknuð sem hlut­fall af þegar til­kynntum tjónum.

„Þá er ráðstöfun vegna framtíðar­mats­kostnaðar, alls 1 ma.kr., einnig varúðarfærsla. Um þessa þrjá síðustu liði ríkir því enn tals­verð óvissa,“ segir í skýrslunni.

Alls 523 tjónamál í Grindavík

NTÍ hefur haft til með­ferðar 523 tjóna­mál vegna jarðhræringanna í Grinda­vík síðastliðið ár.

Þau skiptast þannig að 363 mál eru vegna tjóns á íbúðar­húsnæði, 87 vegna tjóns á at­vinnu­húsnæði, 65 vegna tjóns á lausafé og átta vegna tjóns á veitu­mann­virkjum.

Af þeim 363 málum sem varða hús­eignir er Fast­eignafélagið Þór­katla nú orðið eig­andi 296 þeirra hús­eigna.

„Ólokið er við rúm­lega 20 mál hjá NTÍ er varða hús­eignir sem ekki eru í eigu Þórkötlu. Meiri hluti hús­eigna í Grinda­vík er óskemmdur eða lítið skemmdur. Al­tjón hefur orðið á 63 hús­eignum í bænum. Af þeim eru 20 íbúðar­hús­eignir í eigu Þórkötlu, 15 íbúðar­hús­eignir í eigu ein­stak­linga eða lögaðila og 28 at­vinnu­hús­eignir. Nær öll al­tjón eru vegna þess að hús­eign stendur á eða alveg við sprungu sem valdið hefur miklum skemmdum á burðar­virki og/eða halla, þannig að kostnaður við við­gerð er metinn hærri en vá­tryggingar­fjár­hæð,“ segir í skýrslunni.

Þá hefur NTÍ borist 65 til­kynningar um tjón á vá­tryggðu lausafé, mest á inn­búum í eigu ein­stak­linga en einnig öðru lausafé, t.d. fiska­furðum.

Af­greiðslu þeirra mála er að mestu lokið af hálfu NTÍ sem mat tjónið í heild um 228 milljónir.