Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ) áætlar að metinn heildarkostnaður sem falla mun á stofnunina vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga verði 15,4 milljarðar króna, samkvæmt nýbirtri skýrslu forsætisráðherra um helstu verkefni og framtíðarhorfur á svæðinu.
Í skýrslunni er tekið fram að um þetta ríki þó enn talsverð óvissa. Samkvæmt upplýsingum frá Sigurði Kára Kristjánssyni, stjórnarformanni NTÍ, voru eignir sjóðsins metnar á 60 milljarða í lok janúar.
Tjónabætur sem þegar hafa verið metnar vegna jarðskjálftaatburðarins sem hófst í nóvember í fyrra nema um 6,8 milljörðum og þar af hafa um 5,3 milljarðar þegar verið greiddir út í tjónabætur vegna skemmda af völdum jarðskjálfta, segir í skýrslunni.
Það sem út af stendur, þ.e. metnar útistandandi tjónabætur, nema ríflega 1 milljarði króna.
Þá hefur NTÍ fært 4,1 milljarð til hliðar vegna tilkynntra tjóna sem óvissa ríkir um.
Sú óvissa varðar einkum ástand á burðarfyllingum og undirstöðum á allnokkrum húseignum. Ráðstöfun vegna ótilkynntra tjóna, sem nú eru metin á 3,5 milljarða, er jafnframt varúðarfærsla sem er reiknuð sem hlutfall af þegar tilkynntum tjónum.
„Þá er ráðstöfun vegna framtíðarmatskostnaðar, alls 1 ma.kr., einnig varúðarfærsla. Um þessa þrjá síðustu liði ríkir því enn talsverð óvissa,“ segir í skýrslunni.
Alls 523 tjónamál í Grindavík
NTÍ hefur haft til meðferðar 523 tjónamál vegna jarðhræringanna í Grindavík síðastliðið ár.
Þau skiptast þannig að 363 mál eru vegna tjóns á íbúðarhúsnæði, 87 vegna tjóns á atvinnuhúsnæði, 65 vegna tjóns á lausafé og átta vegna tjóns á veitumannvirkjum.
Af þeim 363 málum sem varða húseignir er Fasteignafélagið Þórkatla nú orðið eigandi 296 þeirra húseigna.
„Ólokið er við rúmlega 20 mál hjá NTÍ er varða húseignir sem ekki eru í eigu Þórkötlu. Meiri hluti húseigna í Grindavík er óskemmdur eða lítið skemmdur. Altjón hefur orðið á 63 húseignum í bænum. Af þeim eru 20 íbúðarhúseignir í eigu Þórkötlu, 15 íbúðarhúseignir í eigu einstaklinga eða lögaðila og 28 atvinnuhúseignir. Nær öll altjón eru vegna þess að húseign stendur á eða alveg við sprungu sem valdið hefur miklum skemmdum á burðarvirki og/eða halla, þannig að kostnaður við viðgerð er metinn hærri en vátryggingarfjárhæð,“ segir í skýrslunni.
Þá hefur NTÍ borist 65 tilkynningar um tjón á vátryggðu lausafé, mest á innbúum í eigu einstaklinga en einnig öðru lausafé, t.d. fiskafurðum.
Afgreiðslu þeirra mála er að mestu lokið af hálfu NTÍ sem mat tjónið í heild um 228 milljónir.