Heildartekjur einstaklinga á Íslandi voru tæpar 10,0 milljónir króna að meðaltali árið 2024 eða að jafnaði 831 þúsund krónur á mánuði, samkvæmt tölum Hagstofunnar.
Miðgildi heildartekna var um 8,3 milljónir króna á ári og var helmingur einstaklinga með heildartekjur undir 691 þúsund krónum á mánuði og helmingur yfir. Hækkun miðgildis heildartekna á milli ára var 7,3% en sé horft til verðlagsleiðréttingar var hækkunin 1,4%.
Meðaltal atvinnutekna var um 6,8 milljónir, meðaltal fjármagnstekna um 1,2 milljónir króna og meðaltal annarra tekna um 2,0 milljónir.
Árið 2024 var meðaltal heildartekna hjá konum um 750 þúsund krónur á mánuði, en hjá körlum um 912 þúsund krónur. Á aldursbilinu 25-54 ára var meðaltal heildartekna hjá konum 825 þúsund krónur og hjá körlum 983 þúsund krónur á mánuði.