Heilsa ehf. hefur gengið formlega frá kaupum á íslenska heilsuvörumerkinu Kulda, sem var stofnað árið 2021. Stofnendur Kulda eru Sveinn Gunnar Björnsson kírópraktor, CrossFit-þjálfarinn Evert Víglundsson og Elías Guðmundsson.

Kælivörur Kulda eru hannaðar af stofnendunum og innihalda kælihlífar, bakbelti og höfuðbönd.

„Kælivörur Kulda hafa þegar skapað sér mikið traust meðal einstaklinga og fagfólks og við ætlum að tryggja að þær verði enn aðgengilegri og á breiðari vettvangi en áður,“ segir Katrín Ýr Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Heilsu.

Vörurnar sameina hreyfanleika, þægindi og einfaldleika og eru sérstaklega hannaðar til að styðja við líkamlega endurheimt, verkjastjórnun og vellíðan eftir daglegt álag, hreyfingu, íþróttir, slys eða aðgerðir.

„Við erum stolt af því að sjá Kulda halda áfram að vaxa innan öflugs fyrirtækis eins og Heilsu, þar sem vörumerkið fær bæði stuðning og ný tækifæri til að blómstra,“ segir Sveinn Gunnar Björnsson, meðstofnandi Kulda.