Fyrirtækið Heima Software ehf. hefur nýlega lokið milljón dala, eða um 133 milljóna króna, fjármögnun sem leidd var af Frumtaki IV. Hlutafjáraukningin naut einnig stuðnings frá íslensku englasjóðunum MGMT Ventures og Tennin.
Stofnendur smáforritsins eru þau Alma Dóra Ríkarðsdóttir, Sigurlaug Guðrún Jóhannsdóttir og Tristan John Frantz.
Heima hefur það markmið að hjálpa fjölskyldum að skipta heimilisverkunum á milli sín á einfaldan, skemmtilegan og jafnan máta. Smáforritið notast við sjálfvirknivæðingu til að sérútbúa yfirlit yfir öll verkefni heimilisins fyrir hverja fjölskyldu.
„Okkar markmið er að gera heimilisverkin skemmtileg og hvetja alla fjölskylduna til að taka þátt. Við höfum líka verið að uppfæra smáforritið en einn af nýju eiginleikunum er verðlaunabúð þar sem börn geta séð verðlaunin, hvort sem það er vasapeningur, bíóferð eða ísbíltúr, þegar þau vinna verkin,“ segir Alma.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.