„Lausnin var upphaflega þróuð fyrir okkar viðskiptavini hér á landi,“ segir Þórarinn Örn Andrésson, sem starfaði sem framkvæmdastjóri Verkfræðistofunnar Vista þar til félagið seldi hugbúnaðarlausnina Vista Data Vision til bandaríska félagsins Bentley Systems á síðasta ári.

Eignarhaldsfélag Verkfræðistofunnar Vista hagnaðist um 1,45 milljarða króna á síðasta ári eftir söluna. Andrés Þórarinsson, faðir Þórarins stofnaði Verkfræðistofuna Vista árið 1984. yrirtækið er enn að mestu í eigu Andrésar og fjölskyldu, en eiginkona hans og börn hafa öll starfað hjá fyrirtækinu með einum eða öðrum hætti í gegnum tíðina. Auk þeirra fer Hallur Birgisson með tæplega fimmtungshlut í fyrirtækinu.

Meðal stórra viðskiptavina Vista í gegnum tíðina hér á landi hafa verið Veðurstofa Íslands, Landspítali, Landsvirkjun, HS Orka og mörg af stærstu sveitarfélögum landsins.

Þórarinn segir það hafa skipt Vista miklu máli að hafa fengið tækifæri til að þróa lausnina á heimamarkaði í samstarfi við þessa aðila. „Pabbi var alltaf með þennan draum að lausnin ætti erindi við fleiri, sem var mjög framsýnt á þeim tíma. Við náðum fljótt tengslum við erlenda framleiðendur, svo hlóð þetta og smátt og smátt utan um sig. Við komumst inn á mjög afmarkaðan markhóp sem kallast jarðtækni en því tilheyra ýmiskonar stórar verklegar framkvæmdir þar sem notast er við fjölbreytt og nákvæm mælitæki,“ segir Þórarinn sem leiðir nú þróun Vista Data Vision fyrir Bentley Systems.

Lausnin nýtt um allan heim

Vista Data Vision hefur verið notað í þúsundum fjölbreyttra verkefna um allan heim á undanförnum árum. Lausnin hefur meðal annars verið nýtt við vökvunarkerfi grasvalla í tengslum við heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem nú fer fram í Katar, í stærstu demantanámu heims í Orapa í Botsvana í Afríku, á þakkargjörðarskrúðgöngu Macy’s í Bandaríkjunum og við stærstu vatnsaflsstíflur Víetnam.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni.