Fasteignafélagið Heimar, sem hét áður Reginn, tilkynnti í dag um að félagið hefði tekið upp nýtt skipurit í kjölfar skipulagsbreytinga að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Í kjölfar breytinganna er Sjálfbærni og rekstur í fasteignum ekki lengur eitt af stoðsviðum fasteignafélagsins. Þar með fækkar sviðum og framkvæmdastjórum hjá fasteignafélaginu um einn.
Heimar segja markmiðið með breytingunum vera að auka samlegð í rekstrinum, styrkja þróun eignasafnsins á kjarnasvæðum og bæta þjónustu við viðskiptavini þess.
„Mikil vinna hefur verið lögð í að aga og bæta stjórnskipulag félagsins. Meginmarkmið skipulagsbreytinga er að einfalda reksturinn með það fyrir augum að auka hagkvæmni og bæta þjónustu við viðskiptavini,” segir Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Heima.
Helstu breytingar á skipuritinu eru eftirfarandi:
- Útleiga og þjónusta, markaðsmál, rekstur í fasteignum og viðskiptaþróun heyra undir nýtt viðskiptasvið og framkvæmdastjóri þess er Baldur Már Helgason.
- Fasteignaþróun, stýring eignasafns og samningsstjórnun, opinberir aðilar, viðhald og framkvæmdir heyra undir nýtt fjárfestingasvið og framkvæmdastjóri þess er Páll Viggó Bjarnason.
- Lögfræði, mannauður og sjálfbærni heyra undir nýtt svið innri rekstrar en nýr framkvæmdastjóri þess er Dagbjört Erla Einarsdóttir sem jafnframt er yfirlögfræðingur Heima hf.
- Fjármál, greining og upplýsingatækni heyra undir fjármálasvið og framkvæmdastjóri þess er Björn Eyþór Benediktsson.