Heimar fasteignafélag, sem hét áður Reginn, hefur fært upp afkomuspá sína fyrir árið 2024. Félagið gerir nú ráð fyrir EBITDA-hagnaði á bilinu 9,95-10,15 milljarða króna í ár en fyrri áætlun félagsins hljóðaði upp á 9,8-10,0 milljarða króna.

Í tilkynningu Heima til Kauphallarinnar kemur fram að félagið geri nú ráð fyrir leigutekjum á bilinu 13,9-14,1 milljarð króna í ár, en fyrri spá félagsins var upp á 13,7-13,9 milljarðar króna.

„Betri afkomuspá er aðallega tilkomin vegna betri nýtingar á leigurýmum en gert hafði verið ráð fyrir. Þá hefur kostnaður vegna reksturs og viðhalds í fasteignum jafnframt verið undir áætlunum.“

Fram kemur að vinna við ársuppgjör sé að hefjast og því geti lykiltölur enn tekið einhverjum breytingum á uppgjörstímabilinu. Heimar munu birta ársuppgjör þann 12. febrúar 2025.