Fasteignafélagið Heimar hf. og hluthafar Grósku ehf. hafa í dag komist að samkomulagi um að hefja einkaviðræður um möguleg kaup Heima á öllu hlutafé í Grósku ehf.

Gróska ehf. á fasteignina Grósku hugmyndhús að Bjargargötu 1 í 102 Reykjavík sem er um 18.573 fermetrar að stærð ásamt 6.252 fermetra bílakjallara með 205 stæðum. Samtals er eignin 24.825 fermetrar.

Aðaleigendur Grósku ehf. er Björgólfur Thor Björgólfsson, Andri Sveinsson og Birgir Már Ragnarsson.

„Verði af viðskiptunum er fyrirhugað að kaupverð verði að öllu leyti greitt með hlutafé í Heimum. Þá munu Heimar yfirtaka skuldabréfaflokkinn GROSKA 29 GB,“ segir í tilkynningu Heima til Kauphallarinnar.

Áréttað er að möguleg viðskipti verði háð ýmsum fyrirvörum og skilyrðum, svo sem um að samkomulag náist um skilmála viðskiptanna, niðurstöðu áreiðanleikakannana, samþykki hluthafafundar Heima fyrir hækkun hlutafjár og samþykki Samkeppniseftirlitsins.