Hlutabréfaverð fasteignafélagsins Heima, sem hét áður Reginn, hækkaði um 1,6% í dag, mest af félögum aðalmarkaðar Kauphallarinnar. Gengi félagsins stendur nú í 37,8 krónum á hlut og hefur nú hækkað um 10,5% á einum mánuði og alls um 57,5% í ár.

Dagslokagengi hlutabréfa Heima hefur ekki verið hærra síðan í maí 2022 en dagslokagengi félagsins fór hæst upp í 39,2 krónur í apríl 2022.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,7% í 4,4 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Tólf félög lækkuðu en níu hækkuðu.

Fjögur félög lækkuðu um eitt prósent eða meira í dag. Hlutabréfaverð Play og Oculis lækkuðu um meira en 3% í dag en þess má geta að velta með hlutabréf fyrrnefnda félagsins nam undir einni milljón króna. Þá féll gengi Alvotech um 1,8% og Marels um 2,2%.

Auk Heima þá hækkaði hlutabréfaverð Skaga, Amaroq Minerals og Ölgerðarinnar um meira en eitt prósent í dag. Hlutabréfaverð málmleitarfélagsins Amaroq stóð í 178 krónum á hlut eftir 27% hækkun á einum mánuði og hefur aldrei verið hærra.