Sameinaða útgáfufélagið ehf., sem gefur út Heimildina og Vísbendingu, hagnaðist um 11 milljónir króna eftir skatta í fyrra sem var fyrsta rekstrarárið eftir samruna Stundarinnar og Kjarnans.

Greint er frá rekstrarniðurstöðu útgáfufélagsins í frétt undir fyrirsögninni „Rekstur Heimildarinnar sjálfbær“ í nýjasta tölublaði Heimildarinnar sem kom út í dag. Þar segir að viðsnúningur hafi orðið í rekstri félagsins.

Tekjur félagsins námu rúmum hálfum milljarði króna í fyrra sem samsvarar 38% tekjuvexti samanlagðrar veltu Útgáfufélags Stundarinnar ehf. og Kjarnans miðla ehf. á árinu 2022, að því er segir í umfjölluninni.

Rekstrarhagnaður Sameinaða útgáfufélagsins ehf. nam 17,7 milljónum króna í fyrra.

Þess má geta að Sameinaða útgáfufélagið fékk úthlutað 54,7 milljónum krónum í fjölmiðlastyrk frá ríkinu á síðasta ári.

Ekki er búið að skila inn ársreikningi Sameinaða útgáfufélagsins til fyrirtækjaskrár Skattsins.

Hluthafar Sameinaða útgáfufélagsins:

  • Heiða B. Heiðarsdóttir 7,6%
  • Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir 7,6%
  • Jón Ingi Stefánsson 7,6%
  • Jón Trausti Reynisson 7,6%
  • Höskuldur Höskuldsson 7,6%
  • Góður punktur ehf. (í eigu Reynis Traustasonar) 7,6%
  • Snæbjörn Björnsson Birnir 7,6%
  • HG80 ehf. (í eigu Hjálmars Gíslasonar) 6,9%
  • Miðeind ehf. (í eigu Vilhjálms Þorsteinssonar) 6,8%
  • Birna Anna Björnsdóttir 4,4%
  • Magnús Halldórsson 3,6%
  • Þórður Snær Júlíusson 3,0%
  • Charlotta María Hauksdóttir 2,8%
  • Kol ehf. (í eigu Helga Más Haraldssonar) 2,5%
  • Hjalti Harðarson 2,3%
  • Vogabakki ehf. (í eigu Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar) 1,9%
  • Fjélagi eignarhaldsfélag (í eigu Jason Whittle (99%) og Steindórs Sigurgeirssonar (1%)) 1,5%
  • Stormur Seafood ehf. (Að mestu í eigu Steindórs Sigurgeirssonar) 1,5%
  • Fagriskógur ehf. (Í eigu Stefáns Hrafnkelssonar) 1,4%
  • Milo ehf. (í eigu Eddu Hafsteinsdóttur og Guðmundar Hafsteinssonar) 1,4%
  • Kjarninn Miðlar ehf. 1,4%
  • Valgerður Oddsdóttir 1,0%
  • Sameinaða útgáfufélagið ehf. 0,9%
  • Birgir Þór Harðarson 0,7%
  • Jónas Reynir Gunnarsson 0,7%
  • Gunnar Tómasson 0,5%
  • Áslaug Karen Jóhannsdóttir 0,5%
  • Kristrún Lind Birgisdóttir 0,3%
  • Egill Sigurðarson 0,2%