Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur og fyrrum efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, segir að talsvert hafi verið rætt um aukin innlán heimila á síðustu árum en minna verið rætt um hvaðan peningarnir hafa verið að koma.
Heimilin hafa aukið innlán sín um rúmlega 50% á aðeins þremur árum en að mati Konráðs vekur sú þróun upp spurningar um hvaðan peningarnir koma og hvort eitthvað annað en ráðstöfunartekjur útskýri þessa miklu aukningu.
„Staðreyndin er sú að í tvo áratugi, fyrir utan sjálfa fjármálakreppuna, hafa innlán heimila fylgt ráðstöfunartekjum nokkuð vel, sem ætti í raun ekkert að koma á óvart. Til samanburðar hafa tekjur heimilanna vaxið um 40% á sama tíma og þar af var vöxtur staðgreiðsluskyldra tekna þeirra 8,5% á fyrsta ársfjórðungi,“ skrifar Konráð á vefsíðu sinni Ráðdeild undir fyrirsögninni „Heimilin eru að drukkna í innlánum.“
Greining Seðlabankans og Hagstofunnar sýnir að innlán heimila hafa í meginatriðum fylgt ráðstöfunartekjum allt frá árinu 2003.
Þótt sveiflur geti orðið til skemmri tíma, sérstaklega í kringum fjármálakreppuna 2008–2010, hefur hlutfallið á milli innlána og ráðstöfunartekna verið tiltölulega stöðugt yfir lengri tíma.
Samkvæmt nýjustu gögnum nema innlán um 70–75% af ráðstöfunartekjum heimila á ársgrundvelli.
Á síðustu misserum má þó greina að innlánin hafa vaxið hraðar en ráðstöfunartekjurnar, sem bendir til þess að sparnaður sé að aukast umfram vöxt launa.
Samkvæmt Konráði er ein skýringin á vaxandi sparnaði í formi innlána líklega hávaxtaumhverfið undanfarin ár.
Hækkun stýrivaxta hefur gert bankainnistæður meira aðlaðandi fyrir sparnað, sérstaklega þegar óvissa ríkir á öðrum mörkuðum.
Hins vegar vakna spurningar um hvort heimilin haldi áfram að geyma peninga á bankabók ef vextir fara að lækka.
Það gæti ýtt undir að fjármunir leiti í aðra farvegi s.s. hlutabréfamarkað, skuldabréf, fasteignir eða jafnvel neyslu í gegnum aukna notkun greiðslukorta.

Í myndriti sem Konráð birtir máli sínu til stuðnings sést hvernig ársvöxtur ráðstöfunartekna og innlána sveiflast nokkuð í takt.
Eftir 2021 hefur innlánavöxtur þó verið heldur hraðari en tekjuvöxtur. Þetta styður þá ályktun að heimilin hafi dregið úr neyslu og lagt meira fyrir. Sparnaður hefur því aukist samhliða miklum launahækkunum og efnahagsbata.
Þegar tekjur vaxa hraðar en áður og sparnaður eykst á sama tíma eykst peningamagn í umferð.
Þetta styður þá klassísku hagfræðikenningu að verðbólga eigi rætur í of miklu peningamagni sem aftur má rekja til hraðrar tekjuaukningar og launahækkana.
Konráð segir að lokum að þetta eigi spili stóran þátt í að halda vöxtum háum hérlendis.
„Við fáum vaxtaákvörðun á morgun. Líkurnar eru óbreyttum vöxtum í vil þó að ákvörðunin sé tvísýn. Hvað sem líður niðurstöðunni sýnir hraður vöxtur tekna, sem birtist í hröðum vexti innlána, hvers vegna vextir eru enn háir og verða líklega áfram um sinn.“