Kon­ráð S. Guðjóns­son, hag­fræðingur og fyrrum efna­hags­ráðgjafi ríkis­stjórnarinnar, segir að tals­vert hafi verið rætt um aukin inn­lán heimila á síðustu árum en minna verið rætt um hvaðan peningarnir hafa verið að koma.

Heimilin hafa aukið inn­lán sín um rúm­lega 50% á aðeins þremur árum en að mati Kon­ráðs vekur sú þróun upp spurningar um hvaðan peningarnir koma og hvort eitt­hvað annað en ráðstöfunar­tekjur út­skýri þessa miklu aukningu.

„Stað­reyndin er sú að í tvo ára­tugi, fyrir utan sjálfa fjár­mála­kreppuna, hafa inn­lán heimila fylgt ráðstöfunar­tekjum nokkuð vel, sem ætti í raun ekkert að koma á óvart. Til saman­burðar hafa tekjur heimilanna vaxið um 40% á sama tíma og þar af var vöxtur stað­greiðslu­skyldra tekna þeirra 8,5% á fyrsta árs­fjórðungi,“ skrifar Kon­ráð á vefsíðu sinni Ráð­deild undir fyrir­sögninni „Heimilin eru að drukkna í inn­lánum.“

Greining Seðla­bankans og Hag­stofunnar sýnir að inn­lán heimila hafa í megin­at­riðum fylgt ráðstöfunar­tekjum allt frá árinu 2003.

Þótt sveiflur geti orðið til skemmri tíma, sér­stak­lega í kringum fjár­mála­kreppuna 2008–2010, hefur hlut­fallið á milli inn­lána og ráðstöfunar­tekna verið til­tölu­lega stöðugt yfir lengri tíma.

Sam­kvæmt nýjustu gögnum nema inn­lán um 70–75% af ráðstöfunar­tekjum heimila á árs­grund­velli.

Á síðustu misserum má þó greina að inn­lánin hafa vaxið hraðar en ráðstöfunar­tekjurnar, sem bendir til þess að sparnaður sé að aukast um­fram vöxt launa.

Sam­kvæmt Kon­ráði er ein skýringin á vaxandi sparnaði í formi inn­lána lík­lega há­vaxta­um­hverfið undan­farin ár.

Hækkun stýri­vaxta hefur gert banka­innistæður meira aðlaðandi fyrir sparnað, sér­stak­lega þegar óvissa ríkir á öðrum mörkuðum.

Hins vegar vakna spurningar um hvort heimilin haldi áfram að geyma peninga á banka­bók ef vextir fara að lækka.

Það gæti ýtt undir að fjár­munir leiti í aðra far­vegi s.s. hluta­bréfa­markað, skulda­bréf, fast­eignir eða jafn­vel neyslu í gegnum aukna notkun greiðslu­korta.

Í mynd­riti sem Kon­ráð birtir máli sínu til stuðnings sést hvernig ár­svöxtur ráðstöfunar­tekna og inn­lána sveiflast nokkuð í takt.

Eftir 2021 hefur inn­lána­vöxtur þó verið heldur hraðari en tekju­vöxtur. Þetta styður þá ályktun að heimilin hafi dregið úr neyslu og lagt meira fyrir. Sparnaður hefur því aukist sam­hliða miklum launa­hækkunum og efna­hags­bata.

Þegar tekjur vaxa hraðar en áður og sparnaður eykst á sama tíma eykst peninga­magn í um­ferð.

Þetta styður þá klassísku hag­fræði­kenningu að verðbólga eigi rætur í of miklu peninga­magni sem aftur má rekja til hraðrar tekju­aukningar og launa­hækkana.

Kon­ráð segir að lokum að þetta eigi spili stóran þátt í að halda vöxtum háum hér­lendis.

„Við fáum vaxtaákvörðun á morgun. Líkurnar eru óbreyttum vöxtum í vil þó að ákvörðunin sé tvísýn. Hvað sem líður niður­stöðunni sýnir hraður vöxtur tekna, sem birtist í hröðum vexti inn­lána, hvers vegna vextir eru enn háir og verða lík­lega áfram um sinn.“