Heimkaup sagði upp tólf starfsmönnum í nóvembermánuði í tengslum við skipulagsbreytingar á rekstri samnefndrar vefverslunar félagsins, en stjórnendur eru nú með rekstur hennar til skoðunar. Uppsagnirnar voru bæði í vefverslun og á skrifstofu. Hjá Heimkaupum starfa rúmlega 160 manns í dag.
Leggja meiri áherslu á Prís
Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Heimkaupa, segir í samtali við Viðskiptablaðið að Heimkaup hafi að undanförnu verið að endurskipuleggja rekstur vefverslunarinnar sem hafi verið rekin með tapi undanfarin ár. Félagið sé stöðugt að leita leiða til að gera rekstur sinn skilvirkari.
„Við höfum lofað okkar viðskiptavinum að spara svo þau geti sparað og bjóða upp á lægsta verðið á matvöru á landinu í Prís og því fylgir að vera með litla yfirbyggingu. Við erum að leggja enn meiri áherslu á Prís sem hefur fengið góðar viðtökur og við horfum til frekari uppbyggingar á Prís.“
Auk Prís og ofangreindrar vefverslunar rekur Heimkaup ehf. þrjár 10-11 verslanir, þrjár Extraverslanir, apótek Lyfjavals og verslanir undir nafni Orkunnar.
Skel fjárfestingarfélag er aðaleigandi Heimkaupa með 81% hlut. Norvik, móðurfélag Byko, er næst stærsti hluthafinn með ríflega 16% hlut.