Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir að ekki standi til að opna Krónuverslun á Hellu á ný en byggðarráð Rangárþings ytra kallaði eftir því í vikunni að finna hentuga lóð undir lágvöruverslun á Hellu.

Krónan seldi verslun sína á Hellu, sem rekin var undir merkjum Kjarval, árið 2021 og í kjölfarið tók Samkaup við versluninni og hafa rekið hana undir merkjum Kjörbúðarinnar undanfarin ár.

Guðrún segir í samtali við Viðskiptablaðið að félaginu hafi fundist það afar leitt að þurfa að loka verslun Kjarvals á Hellu á sínum tíma. Það hafi hins vegar verið hluti af skilyrðum í sátt Festi, móðurfélags Krónunnar, og Samkeppniseftirlitsins í kjölfar samrunans.

„Við höfum alla tíð lagt metnað í að veita landsmönnum greiðan aðgang að fjölbreyttu vöruúrvali á hagstæðu verði, þess vegna þótti okkur miður að þurfa að gefa frá okkur þessa staðsetningu.“

Hún segir hins vegar að Krónan vinni nú hörðum höndum að því að undirbúa heimsendingarþjónustu í gegnum Snjallverslun Krónunnar og auka aðgengi að henni fyrir íbúa landsbyggðarinnar.

„Þarna ætlum við ekki að skilja Hellu eftir heldur stefnum við á að opna á heimsendingar á haustmánuðum. Við hvetjum fólk og fyrirtæki eindregið til þess að nýta sér þessa þjónustu þegar að því kemur. Við ætlum okkur svo sannarlega að vera til staðar fyrir íbúa Hellu, þó að það sé ekki endilega í gegnum hefðbundna matvöruverslun.“