Hundrað ára skuldabréf Argentínu, sem voru kölluð „heimskasta fjárfesting í heimi“, hafa skilað mun betri ávöxtun en flestir þorðu að vona en bréfin sýna að áhættusamar fjárfestingar geta oft borgað sig. sam­kvæmt The Wall Street Journal.

Árið 2017 gaf Argentína út 100 ára skulda­bréf í Bandaríkja­dölum, en mörgum þótti óskyn­sam­legt að fjár­festa í svo löngum skulda­bréfum frá landi sem hafði ítrekað lent í greiðslu­falli.

Þeir sem keyptu bréfin voru gerðir að aðhláturs­efni fyrir barna­skap sinn, og rétt eins og gagn­rýn­endur spáðu, fór Argentína í greiðslu­fall aðeins þremur árum síðar.

Engu að síður hefur þessi fjár­festing reynst arðbær. Þrátt fyrir að markaðsverð skulda­bréfanna hafi fallið um fjórðung hafa háir vextir bréfanna bætt það upp.

Hefðu fjár­festar endur­fjár­fest vaxta­greiðslurnar í sömu skulda­bréfum, hefðu þeir hagnast vel yfir 50%.

Til saman­burðar hafa 30 ára bandarísk ríkis­skulda­bréf tapað um 10% af virði sínu á sama tíma, en ríkis­skulda­bréfa­vísi­tala Bandaríkjanna hefur aðeins skilað lítilli ávöxtun.

Þessi þróun undir­strikar þrjár mikilvægar lexíur fyrir fjár­festa að mati WSJ: Þegar áhættur eru aug­ljósar eru þær oft verð­launaðar, jafn­vel þegar áhættur eru ekki sýni­legar eru þær samt til staðar og pólitísk um­bylting er ófyrir­sjáan­leg.

Saga Argentínu er löng og sveiflu­kennd þegar kemur að skuldum. Landið lenti fyrst í greiðslu­falli aðeins 11 árum eftir að hafa fengið sjálf­stæði frá Spáni árið 1816 og hefur alls orðið gjaldþrota níu sinnum síðan þá.

Samt halda fjár­festar áfram að lána því fé, því rétt verðlagður áhættu­vöxtur getur skilað ágætis ávöxtun.

Rannsóknir hafa sýnt að skuldir áhættu­samra ríkja hafa til lengri tíma litið skilað betri ávöxtun en örugg ríkis­skulda­bréf Bandaríkjanna eða Bret­lands, þrátt fyrir tíð greiðsluföll.

Hins vegar er mikilvægt að fjár­festar séu til­búnir til að þola miklar sveiflur. Í lægð skulda­bréfanna árið 2020 hafði virði þeirra fallið um 75%.

En þeir sem héldu bréfunum eiga nú síðasta orðið, því saman­lögð verðmæti skulda­bréfanna og vaxta­greiðslna hafa nú farið yfir upp­haf­lega fjár­festingu.

Jafn­vel meira en það, þau hafa skilað mun betri ávöxtun en „örugg“ bandarísk ríkis­skulda­bréf.

Ein af ástæðunum fyrir þessari endur­reisn er stefna nýs for­seta Argentínu, Javi­er Milei, sem hefur tekið til stór­felldra niður­skurðarað­gerða í opin­berum rekstri án þess að tapa vinsældum.

Þessi stefna hefur aukið traust markaðarins og gæti leitt til þess að Argentína muni brátt geta gefið út ný skulda­bréf á alþjóða­markaði án stuðnings Alþjóða­gjald­eyris­sjóðsins.

Í saman­burði hafa löng ríkis­skulda­bréf í þróuðum ríkjum reynst skað­leg fjár­festing.

Fjár­festar sem keyptu 40 ára japönsk ríkis­skulda­bréf þegar vextir voru í lág­marki árið 2019 hafa tapað helmingi fjár­festingar sinnar í jenum og 65% í bandaríkja­dölum vegna gengis­falls.

Bresk 50 ára skulda­bréf hafa tapað enn meira og 30 ára bandarísk ríkis­skulda­bréf hafa tapað 45% af virði sínu frá upp­hafi heims­far­aldursins.

Al­versta fjár­festingin hefur þó verið 100 ára skulda­bréf Austurríkis, sem var gefið út árið 2019 án vaxta, en hefur tapað yfir 90% af virði sínu síðustu fimm ár.

Þessi dæmi sýna að „örugg“ skulda­bréf eru ekki alltaf örugg þegar verðbólga og vaxta­hækkanir leiða til verð­falls. Þau minna einnig á að pólitísk óvissa getur haft ófyrir­sjáan­leg áhrif á markaði.

Stefna Mileis hefur verið óvænt vel­gengni, en fáir fjár­festar myndu þora að spá því að Argentína sleppi alveg við framtíðar­greiðslu­fall.

Þrátt fyrir það hefur fjár­festingin í 100 ára skulda­bréfunum reynst mun betri en margir bjuggust við og veitt verðmæta lexíu um verðmæti áhættu í fjár­festingum.