Verð á Brent hráolíu, sem er hráefni fyrir eldsneyti og aðalmiðviðunarverð fyrir olíu, hefur lækkað um hálft prósent í framvirkum samningum í dag.
Tunnan af Brent stendur nú í 91,3 dölum eftir að hafa lækkað síðustu sex daga en þó ekki nema um rúmt hálft prósent í heildina.
Um viðsnúning er þó að ræða því það stefndi í það að tunnan gæti farið yfir 100 dali en framleiðsluskerðingar Rússlands og Sádi Arabíu hafa híft verðið upp síðastliðna mánuði.
Tunnan hefur enn hækkað um tæp 19% síðastliðna sex mánuði og farið úr 72 dölum í 92 dali frá miðju ári sem er um fjórðungshækkun.
Hefur fjölþætt áhrif á Ísland
Hækkunin hefur nú þegar haft slæm áhrif á íslensku flugfélögin en Play hefur dregið spá um rekstrarhagnað (EBIT) á árinu 2023 til baka, einkum vegna hækkandi eldsneytisverðs.
Icelandair færði afkomuspá sína niður af sömu ástæðum.
Hækkun á heimsmarkaðsverði á olíu getur einnig haft slæm áhrif á verðbólguna á Íslandi en eldsneyti hefur fjölþætt áhrif á verðmælingar Hagstofunnar m. a. gegnum verð á bensíndælunni, í formi hærri flugfargjalda og síðan í gegnum allt innflutningsverðlag vegna hærri kostnaðar við að flytja vörur til landsins.