Heims­markaðs­verð á olíu hélt á­fram að hækka í morgun og fór verðið á tunnunni af Brent-hrá­olíu upp í 79,94 dali. Verðið hefur að­eins dalað síðan þá en ekkert bendir til þess að lækkanir séu í kortunum vegna stig­magnandi á­taka fyrir botni Mið­jarðar­hafs.

Olíu­verð lækkaði tölu­vert frá apríl til septem­ber en tók síðan við sér á ný í síðustu viku. Verðið á Brent hækkaði um 8% í síðustu viku í kjöl­far þess að Íran lét rigna eld­flaugum yfir Ísrael.

Sam­kvæmt Financial Times hafa fjár­festar á olíu­markaði á­hyggjur af á­rásum á inn­viði sem gætu truflað olíu­flutninga og/eða á­tökum sem loka Hor­mússundi.

FT greinir frá því að stórir vogunar­sjóðir sem höfðu veðjað á að olía myndi halda á­fram að lækka út árið séu nú að endur­skoða stöðu­tökur sínar. Losað var um tölu­verðar skort­stöður gagn­vart verðinu á Brent í byrjun októ­ber.

Hins vegar voru tölvustýrðir sjóðir sem fylgja leitni markaðarins enn að skort­selja olíu síðast­liðinn fimmtu­dag, sam­kvæmt gögnum frá Société Généra­le.