Norska leigufélagið Heimstaden á nú í viðræðum við íslenska lífeyrissjóði um möguleg kaup sjóðanna á hlut í Heimstaden á Íslandi, sem hét áður Heimavellir. Gauti Reynisson, framkvæmdastjóri Heimstaden á Íslandi, staðfestir í samtali við Morgunblaðið að viðræður hafi átt sér stað en tekur fram að engin niðurstaða liggi fyrir.

Hann segir að erlendir eigendur félagsins hafi lagt upp með að Heimstaden á Íslandi verði til lengri tíma að hluta til í eigu stofnanafjárfesta.

„Ég get ekki tjáð mig mikið um þetta á þessu stigi en það er rétt að Heimstaden er sem stendur eini eigandi eignasafnsins hér á landi og er Ísland eina landið í samstæðunni með slíkt fyrirkomulag. Það væri í samræmi við rekstur og stefnu Heimstaden í öðrum löndum ef lífeyrissjóðirnir kæmu að félaginu enda er félagið með meðeigendur í öðrum löndum,“ hefur Morgunblaðið eftir Gauta.

Heimildir Morgunblaðsins herma að horft sé til þess Heimstaden verði áfram stór eigandi með um 40%-50% hlut ásamt því að annast áfram rekstur og stýringu eignasafnsins. Fasteignasafn Heimstaden á Íslandi var metið á yfir 72 milljarða króna um mitt þetta ár. Gangi áformin eftir gæti því verið um tugmilljarða króna fjárfestingu að ræða hjá lífeyrissjóðunum.