Lögfræðingar Liz Truss, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hafa sent Keir Starmer, núverandi forsætisráðherra Bretlands, þar sem farið er fram á að hann hætti að halda því fram að Truss hafi „skemmt hagkerfið“ (e. „crashed the economy“). The Telegraph greinir frá.
Í bréfinnu, sem lögmannsstofan Asserson sendi fyrir hennar hönd í gær, segir að fullyrðingar Starmer um aðgerðir Truss séu „rangar og ærumeiðandi“.
Þá segir að forsætisráðherrann hafi valdið orðspori Truss alvarlegum skaða, sem hafi mögulega átt þátt í að hún missti þingsæti sitt í þingkosningunum síðasta sumar.
„Skjólstæðingur okkar fer fram á að þú hættir samstundis að endurtaka þessar ærumeiðandi staðhæfingar,“ segir í bréfin. „Við vonum innilega að hægt sé nú að leysa málið og að þú stillir þig um að valda skjólstæðingi okkar ekki frekari skaða.“
Starmer virðist hins vegar ekki ætla að láta bréfið hafa áhrif á sig. Talsmaður forsætisráðherrans sagði í dag að hann telji forsætisráðherrann ekki vera „einu manneskjuna í landinu sem deili þeirri skoðun í tengslum við hvernig fyrri ríkisstjórnin hélt utan um hagkerfið“.
Í umfjöllun FT segir að bréf Truss muni líklega vekja athygli innan Westminister í ljósi afstöðu hennar til málfrelsi. Síðasta sumar studdi hún áform Elon Musk þegar kemur að ritskoðun á samfélagsmiðlinum X og sagðist blöskra aðförina að málfrelsi í Bretlandi og Evrópu. „Við getum ekki raunverlega verið frjáls án málfrelsis,“ sagði Truss.
Liz Truss tók við í september 2022 sem forsætisráðherra Bretlands eftir að hafa borið sigur úr býtum í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins, en Boris Johnson hafði tilkynnt um afsögn sína um sumarið.
Embættistíð Truss var hins vegar ekki löng og sagði hún af sér eftir einungis 49 daga í embætti eftir að umdeild fjáraukalög ríkisstjórnar hennar féllu í grýttan jarðveg á mörkuðum. Breska pundið féll niður í áður óþekktar lægðir og krafa ríkisbréfa hækkaði töluvert sem varð til þess að Englandsbanki hóf stórtæk kaup á ríkisbréfum. Truss fór í sögurnar sem skammlífasti forsætisráðherra í nútímasögu Bretlands.