Sprotafyrirtækið Viska var stofnað af hóp starfsmanna sem störfuðu áður hjá Plain Vanilla. Þau hafa þróað hugbúnað sem auðveldar  þjálfun starfsmanna og gerir fyrirtækjum kleift að ýta örþjálfun til starfsfólksins og vita nákvæmlega hver þekkingarstaða fyrirtækisins er. Stofnendur Visku eru þrír; Valgerður Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri, Stefanía Bjarney Ólafsdóttir, stjórnarformaður félagsins, og Árni Hermann Reynisson. Fyrirtækið var stofnað í janúar síðastliðinn en stofnendur þess eru stórhuga og eru nú þegar í viðræðum við stóra erlenda aðila.

Valgerður, sem er þó oftast kölluð Vala, útskýrir að lausnin sé tvíþætt: „Annars vegar stjórnendakerfi (e. admin) þar sem mannauðsstjóri, sérfræðingur, eða önnur manneskja sem sér um þjálfun í fyrirtækjum, býr til efni fyrir starfsmenn. Hins vegar er snjallforrit, þar sem starfsmaðurinn fer í gegnum 5 til 15 mínútna örkúrsa í þjálfunarefninu,“ segir Vala. Stefanía bætir við að sú manneskja sem heldur utan um notkun fyrirtækisins á forritinu, getur séð hvernig starfsmönnum vegnar. „Við erum að besta þá ómældu vinnu sem fer í þjálfun starfsfólks. Ekki einungis í formi sparnaðar á tíma og vinnu, heldur veitum við einnig innsýn í innanhúss þekkingarstöðu, sem flest fyrirtæki skortir, og getur bætt afköst og afkomu töluvert. Auk þess henta aðferðirnar sem við notum til að miðla efni til starfsfólksins  mjög vel fyrir aldamótakynslóðina, sem hefur vanist því að meðtaka efni í smáum skömmtum,“ segir Stefanía.

Geta hlaupið hraðar með góðu fjármagni

Að sögn forsvarsmanna Visku gekk fyrsta umferð fjármögnunar vonum framar. „Við fórum af stað í janúar og vorum fljótt  búin að ganga frá góðu fjármagni. Við fengum inn fjármagn frá íslenskum fjárfestingasjóðum, Brunni og Investa. Til viðbótar fengum við 50 milljónir króna frá Tækniþróunarsjóði. Fjármögnunin gerir okkur kleift að hraða vöruþróun, taka inn fleiri viðskiptavini fyrr, og einbeita okkur að sölu erlendis,“ segir Stefanía.

Þegar stofnendur Viska eru spurðir út í framtíðaráform fyrirtækisins segir Stefanía að fyrirtækið stefni að því sækja í það að vinna með stórum erlendum fyrirtækjum. „Megináherslan hjá okkur er að hugsa þetta stórt og hugsa þetta alþjóðlega,“ segir hún. Vala bætir við að Viska sé nú þegar í forprufun hjá fyrirtækjum bæði erlendis og hérna á Íslandi. „Áhuginn er gífurlegur,“ segir hún.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð . Meðal annars efnis í blaðinu er:

 • Íslenskt byggingar- og verktakafyrirtæki snýr við rekstrinum og skilaði yfir milljarði í hagnað.
 • Nýtt verðmat IFS á Icelandair Group.
 • Formaður Framsóknarflokksins lagði fram fyrirspurn um eignasafn Seðlabanka Íslands. Lítið hefur verið um svör.
 • Ferðaþjónustan virðist vera á vendipunkti, sér í lagi þegar kemur að samþjöppun.
 • Vöxtur í útflutningi þarf að fylgja vexti hagkerfisins í heild að mati hagfræðings Viðskiptaráðs.
 • Umfjöllun um eignarhlut ríkissjóðs í bankakerfi landsins.
 • Ítarlegt viðtal við Frosta Ólafsson, forstjóra Orf líftækni.
 • Bone & Marrow nýtt heilsu- og matvælafyrirtæki sem leitar aftur í smiðju forfeðra eftir æskilegri næringu.
 • Petrea I. Guðmundsdóttir, nýr framkvæmdastjóri veitingahúsakeðjunnar Gló, er tekin tali.
 • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um leiðtogakjör í Reykjavík.
 • Óðinn skrifar um Bitcoin.