Hollenski bjórframleiðandinn Heineken velti 36 milljörðum evra á síðasta ári, sem nemur tæplega 5.400 milljörðum króna, og hagnaðist um 978 milljónir evra, sem nemur 146 milljörðum króna.
Rekstrarhagnaður jókst þá um 8,3% milli ára, talsvert umfram væntingar greiningaraðila sem gerðu ráð fyrir 5,3% aukningu.
Heineken birti uppgjör vegna ársins 2024 nú í morgun.
Gengi bréfa Heineken, sem er skráð í kauphöllina í Amsterdam, hefur hækkað um rúm 12% það sem af er degi í kjölfar birtingar uppgjörsins. Þá tilkynnti félagið að það hyggist setja í gang endurkaupaáætlun á hlutabréfum félagsins að andvirði 1,5 milljarða evra á næstu tveimur árum.
Gengi bréfa annarra bjórframleiðenda í Evrópu hafa hækkað í kjölfar jákvæðs uppgjörs Heineken. Belgíski bjórframleiðandinn AB InBev, sem framleiðir m.a. Stella Artois, Beck’s, Leffe og Hoegaarden, hefur hækkað um tæp 4% það sem af er degi. Þá hefur gengi bréfa Carlsberg hækkað um 3%.