Hollenski bjórframleiðandinn Heineken hefur kennt veðráttunni í sumar fyrir dræmum sölutölum á öðrum ársfjórðungi. Félagið færði einnig niður virði eignarhlutar í kínverskum framleiðanda. Hlutabréf Heineken hafa lækkað um meira en 7% í morgun.

Sala Heineken í magni á fyrri árshelmingi jókst um 2,1% milli ára. Það er nokkuð undir væntingum greiningaraðila sem áttu að meðaltali von á 3,4% aukningu en svo virðist sem Evrópumeistaramótið í fótbolta hafi ekki leitt til jafnmikillar söluaukningar og markaðsaðilar vonuðust eftir.

Bjórsala í Evrópu á fyrstu sex mánuðum ársins jókst um 0,6% frá sama tímabili í fyrra en greinendur höfðu spáð 2% aukningu.

„Venjulega hafa stórir íþróttaviðburðir líkt og Evrópumeistaramótið jákvæð áhrif en veðurfar hefur verið töluvert verra en að jafnaði síðustu ár og verra en á síðasta ári með tilheyrandi áhrifum á reksturinn,“ sagði Dolf van den Brink, forstjóri Heineken, á uppgjörsfundi.

Vonbrigði vegna sölunnar á öðrum fjórðungi skyggði á annars jákvæða þróun í rekstri Heineken, að því er segir í frétt Financial Times. Bjórframleiðandinn hefur á síðustu misserum náð viðsnúningi í rekstri með aukinni sölu í magni eftir samdráttartímabil. Félagið var gagnrýnt í fyrra fyrir miklar verðhækkanir sem leiddu til minni sölu.

Þá tilkynnti Heineken um 874 milljóna evra niðurfærslu, eða sem nemur tæplega 130 milljörðum króna, á virði eignarhlutar í stærsta bjórframleiðanda Kína, China Resources Beer. Hlutabréfaverð kínverska félagsins hefur lækkað um 24% í ár og er nú komið undir það verð á hlut sem Heineken greiddi fyrir árið 2019.

Niðurfærslan leiddi til 95 milljóna evra taps á fyrri árshelmingi hjá Heineken.