Hollenski bruggarinn Heineken leitast nú við að nýta sér vaxandi eftirspurn eftir óáfengum drykkjum en sú eftirspurn hefur stóraukist undanfarin ár. Fréttamiðillinn WSJ tók nýlega viðtal við forstjóra Heineken, Dolf van den Brink.

Hann segir að sala á áfengum bjór og óáfengum bjór þurfi ekki að vera annaðhvort eða og vill að fyrirtækið haldi áfram sókn sinni í framleiðslu óáfengra drykkja.

„Á föstudagskvöldi gætu viðskiptavinir viljað venjulegan Heineken en á mánudagskvöldi eða í hádeginu vilja þeir kannski fá einn óáfengan. Sú stefna virðist þjóna okkur vel,“ segir Dolf.

Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu jókst sala á Heineken 0,0 um 10% á síðasta ári en það var 8,8% meiri aukning en hjá hinum hefðbundna Heineken-bjór og 1,6% aukning miðað við magn.

Búist er við því að hófsemi í drykkju muni knýja áfram sölu á óáfengum bjór á þessu ári þar sem neytendur virðast vera að einbeita sér í auknum mæli að heilsu og vellíðan. Óáfengur bjór samsvaraði þá rúmlega 2,8% af alþjóðlegum bjórmarkaði í fyrra.