Fríhafnarverslanirnar á Keflavíkurflugvelli opna undir nýju vörumerki, Ísland – Duty Free, á miðvikudaginn, 7. maí næstkomandi, þegar nýr rekstraraðili, Heinemann, tekur við verslununum.

Í fréttatilkynningu kemur fram að með opnun Ísland – Duty Free muni vöruframboðið taka nokkrum breytingum og vöruúrval aukast. Að lágmarki 30% af öllu vöruframboði verður íslenskt.

Vegna tilfærslunnar verður ráðist í breytingar á fríhafnarverslunum í komu- og brottfararsal sem og við brottfararhlið og verður verslununum því lokað í nokkrar klukkustundir á meðan á breytingunum stendur, eða frá kvöldi 6. maí til morguns 7. maí nk., samkvæmt eftirfarandi tímasetningum:

  • Brottfararverslun: Lokar 6. maí kl. 20:00 og opnar aftur 7. maí kl. 04:00
  • Komuverslun: Lokar 6. maí kl. 23:00 og opnar aftur 7. maí kl. 07:00.
  • Verslun við brottfararhlið: Lokar 6. maí kl. 20:00 og opnar aftur 7. maí kl. 9:00.

Fram kemur að á meðan á lokun stendur fá farþegar sem ekki geta verslað í Ísland – Duty Free vegna lokana afhendan 20% afsláttarmiða sem gildir í eitt ár og hægt verður að nota við næstu heimsókn í fríhafnarverslanirnar.

„Þetta eru mjög ánægjuleg tímamót. Við höfum einsett okkur að bjóða viðskiptavinum okkar upp á framúrskarandi úrval af erlendum og íslenskum vörum. Þær breytingar sem við erum að gera á verslununum er eingöngu fyrsta skrefið í vegferð næsta árið, þar sem verslanir okkar í Keflavík verða endurhannaðar með það að markmiði að gera upplifun viðskiptavina sem ánægjulegasta. Þegar verslanir okkar verða komnar í sína endanlegu mynd á næsta ári mun það ekki fara fram hjá nokkrum sem þar verslar að hann er staddur á Íslandi, það mun endurspeglast í hönnun, miklu úrvali af íslenskum vörum og fjölbreyttum tilboðum til okkar viðskiptavina,“ segir Frank Hansen, framkvæmdastjóri Ísland-Duty Free.

Þessi tekining af hönnun verslana Ísland-Duty Free þegar þegar þær verða komnar í endanlegt útlit á næsta ári, fylgdi með tilkynningunni.
© Aðsend mynd (AÐSEND)