Forsvarsmenn Heklu hf. hafa sent frá sér yfirlýsingu í tengslum við umfjöllun Kastljóss í Ríkissjónvarpinu á mánudaginn sl. Málið er í tengslum við lóðamál olíufélaganna en Hekla gagnrýnir tengingu Heklureits við málið.

„Í tengslum við umfjöllun Kastljóss hefur hinn svokallaði Heklureitur við Laugaveg með ósanngjörnum hætti verið tengdur við það mál. Að leggja þessi mál að jöfnu er eins fjarri sannleikanum og hægt er að fara, enda himinn og haf á milli þeirra gjörninga sem vísað var í í Kastljósþættinum og þess sem Hekla hf. hefur staðið frammi fyrir í samskiptum og samningum við Reykjavíkurborg.“ Fullyrðingar Dags B. Eggertssonar, sem var borgarstjóri þegar samningarnir voru gerðir, í þættinum um að svipað fyrirkomulag hafi verið á Heklureitnum og á lóðum olíufélaganna séu því rangar.

Forsvarsmenn fyrirtækisins segjast hafa fengið fyrirspurnir vegna málsins og vilja að eftirfarandi komi skýrt fram:

„Í samkomulagi Heklu hf. við Reykjavíkurborg 2. mars 2021 eru skýr ákvæði um greiðslu gatnagerðargjalda samkvæmt lögum og gjaldskrá Reykjavíkurborgar þar um. Auk þess er þar getið um sérstakar greiðslur innviðagjalda/byggingaréttargjalds ásamt kostnaðarþátttöku vegna félagslegra íbúða á föstu verði.“

Framkvæmdafélagið Laugavegur ehf. gekk frá kaupum á öllum fasteignum á svokölluðum Heklureit, sem nær til Laugavegar 168 og til og með 174 í febrúar árið 2022.