Stefán Ólafsson, sérfræðingur hjá Eflingu, fór mikinn í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hann segir viðskiptabankana sýna samfélaginu fingurinn með hækkun á vöxtum íbúðalána.

Í greininni ber hann saman langtímameðaltal raunvaxta lána á tímabilinu 2013 til 2023 við núverandi raunvexti á íbúðalánum viðskiptabankanna þriggja sem sjá má á meðfylgjandi mynd. Stefán segir að raunvextir húsnæðislána séu komnir langt yfir langtímameðaltal raunvaxta hér á landi.

Hann dregur þá ályktun út frá þessu að sá hópur sem hefur kallað eftir að skipta krónunni út fyrir evru „og komast á mun hagstæðari vaxtakjör sem tíðkast í ESB-löndum“ muni fá mjög aukinn vind í seglin í kjölfar vaxtahækkana bankanna.

Stefán Ólafsson, sérfræðingur hjá Eflingu, fór mikinn í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hann segir viðskiptabankana sýna samfélaginu fingurinn með hækkun á vöxtum íbúðalána.

Í greininni ber hann saman langtímameðaltal raunvaxta lána á tímabilinu 2013 til 2023 við núverandi raunvexti á íbúðalánum viðskiptabankanna þriggja sem sjá má á meðfylgjandi mynd. Stefán segir að raunvextir húsnæðislána séu komnir langt yfir langtímameðaltal raunvaxta hér á landi.

Hann dregur þá ályktun út frá þessu að sá hópur sem hefur kallað eftir að skipta krónunni út fyrir evru „og komast á mun hagstæðari vaxtakjör sem tíðkast í ESB-löndum“ muni fá mjög aukinn vind í seglin í kjölfar vaxtahækkana bankanna.

Stefán birti meðfylgjandi mynd með greininni.

Hækkað minna en vextir á skuldabréfum bankanna

Agnar Tómas Möller, stjórnarmaður í Íslandsbanka og fyrrum sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu, svaraði Stefáni í færslu á X í hádeginu. Hann segir Stefán hafa valið tímabil óvenjulegra vaxta til samanburðarins og bendir á að langtímameðaltal raunvaxta íbúðalána frá 2009 sé um 4%.

Þá segir Agnar verðlagningu og afkomu af húsnæðislánum ekki ráðast af langtímameðaltali húsnæðislánavaxta heldur fjármögnunarkjörum banka á skuldabréfamarkaði annars vegar og skammtímaraunvöxtum Seðlabankans (gegnum innlánafjármögnun bankanna) hins vegar.

Í dag séu tæplega 4% raunvextir Seðlabankans í hámarki sé litið aftur til ársins 2009. Agnar bendir auk þess á að miðað við verðbólguspár verða raunvextir Seðlabankans líklega mun hærri næstu mánuði og því sé afkoma banka af verðtryggðum útlánum líkleg til að verða neikvæð.

Vextir stuttra verðtryggðra ríkisbréfa séu um 5,1% og stuttra sértryggðra skuldabréfa um 5,4%. „Bankar (og lífeyrissjóðir) myndu hafa talsvert betra afkomu af þeim skuldabréfum en íbúðalánum á núverandi vöxtum.“

Á árunum 2020-2022 hafi hækkun vaxta á útgefnum skuldabréfum bankanna numið um 4,5-5,0 prósentustigum og hækkun raunvaxta Seðlabankans var um 6 prósentustig á sama tíma. Verðtryggðir vextir íbúðalána hafi hins vegar hækkað um 2,5-3,0 prósentur yfir sama tímabil.

„Hvernig virkar peningastefna þegar útlánavextir mega ekki fylgja markaðsvöxtum og aðhaldsstigi Seðlabankans? Til skemmri tíma er greiðslubyrði verðtryggðra lána miklu lægri en óverðtryggðra, jafnvel í samanburði við sum nágrannalönd...“

Agnar birti meðfylgjandi mynd með færslunni.

Benedikt: Kostnaður við verðtryggða útgáfu hækkað umtalsvert

Töluverð umræða skapaðist um vaxtakjör viðskiptabankana eftir að Arion banki og Íslandbanki tilkynntu um hækkun á breytilegum verðtryggðum vöxtum íbúðalána í síðustu viku. Ýmsir verkalýðsforingjar og nokkrir þingmenn gagnrýndu bankana harðlega.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion, svaraði fyrir vaxtahækkun bankans í aðsendri grein á Vísi á föstudaginn þar sem hann sagði nokkuð óvenjulegar aðstæður vera á íslenska skuldabréfamarkaðnum þar sem væntingar til verðbólgu annars vegar og vaxta hins vegar séu ólíkar.

„Síðastliðinn mánuð hefur væntingar markaðarins til verðbólgu til skemmri tíma verið á þann veg að hún muni lækka en nær engar væntingar eru um að stýrivextir lækki í bráð. Þessar ólíku væntingar til vaxta og verðbólgu leiða til þess að kostnaður bankanna við útgáfu verðtryggðra skuldabréfa til skamms tíma, okkar helstu fjármögnunarleiðar þegar kemur að verðtryggðum íbúðalánum, hefur hækkað umtalsvert,“ sagði Benedikt.

„Það er einfaldlega svo að þegar stýrivextir lækka ekki í takt við lækkandi verðbólgu þá hækka verðtryggðir vextir. Þess vegna þurftum við nýverið að hækka vexti verðtryggðra lána.“

Vegna þessara ólíku væntinga geri fjárfestar skuldabréfa í dag kröfu um 5% vexti ofan á verðbætur fyrir það lánsfé sem þeir veita bönkunum í gegnum skuldabréfamarkaðinn; lánsfé sem bankarnir nota til að veita verðtryggð íbúðalán með breytilegum vöxtum.

„Þannig væri í dag hægt að taka íbúðalán hjá banka og nota það til að kaupa skuldabréf útgefið af sama banka, nú eða ríkisskuldabréf, og hagnast yfir 1% á ári. Ef við tökum dæmi til einföldunar þá væri þetta eins og ef bakari seldi brauðið ódýrar en hveitið sem þarf til að búa það til, sem auðvitað gengur ekki til lengdar.“