Helgafell eignarhaldsfélag hagnaðist um 5.542 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 1.910 milljóna hagnað árið 2020. Afkoma félagsins skýrist nær alfarið af hlutdeild í afkomu S121, stærsta hluthafa fjárfestingafélagsins Stoða. Bókfært virði 48,2% eignarhlutur Helgafells í S121 nam 14,6 milljörðum króna í árslok 2021. Í nýbirtum ársreikningi Helgafells kemur fram að félagið hafi bætt við eignarhlut sinn í S121 á síðasta ári fyrir 910 milljónir.

Félagið er í eigu Ara, Bjargar og Kristínar Fenger og fjölskyldu. Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða og eiginmaður Bjargar, er framkvæmdastjóri Helgafells og fer sjálfur með 20% hlut í félaginu.

Sjá einnig: Stoðir hagnast um 20 milljarða

Helgafell seldi allan hlut sinn í Barone I á síðasta ári en í árslok 2020, var 36,4% hlutur í félaginu bókfærður á 622 milljónir króna. Barone I seldi á síðasta ári Port I, eiganda Dælunnar og Löðurs, til Skeljungs. Í árslok 2020 var Fiskisund stærsti hluthafi Barone I með 42,1% hlut en auk þess átti Einir, félag Einars Arnar Ólafssonar, 18% hlut.

Eigið fé Helgafells nam 14,8 milljörðum króna í árslok 2021 en ári áður var eigið fé félagsins 9,2 milljarðar. Félagið, sem er nær skuldlaust, hyggst ekki greiða út arð vegna síðasta árs.

Kolka skilar 400 milljóna hagnaði

Ari, Björg og Kristín eiga einnig Eignarhaldsfélagið Kolku, móðurfélag 1912 samstæðunnar sem á Nathan & Olsen, Ekruna og Emmessís. Kolka skilaði 400 milljóna króna hagnaði á síðasta ári, sem er um 30% aukning frá árinu 2020. Velta Kolku jókst um 8,5% á milli ára og nam 11,1 milljarði króna.

Eignir Kolku námu 4,5 milljörðum í árslok 2021, samanborið við nærri 3,8 milljarða ári áður. Eigið fé jókst um 200 milljónir á milli ára og nam 791 milljónum í lok síðasta árs. Stjórn félagsins leggur til að 150 milljónir verði greiddar í arð vegna síðasta rekstrarárs.

Nathan og Olsen hagnaðist um 296 milljónir árið 2021 samanborið við 355 milljónir árið áður. Velta heildverslunarinnar nam tæplega 6,4 milljörðum króna sem stjórn félagsins telur ágætt í ljósi þess að mikill vöxtur einkenndi fyrra ár vegna áhrifa heimsfaraldursins. Kostnaðarverð seldra vara hækkaði um 4,5% á milli ára og nam 4,9 milljörðum.

„Árið litaðist töluvert af miklum hækkunum og töfum í flutningskeðjunni sem og hráefnishækkunum sem ekki sér enn fyrir endann á. Auðséð var að félagið gat ekki nema tímabundið tekið á sig þær hækkanir sem dundu yfir á árinu og hefur nú þegar verið gripið til nauðsynlegra ráðstafana sem fela í sér bæði hagræðingu og verðhækkanir,“ segir í skýrslu stjórnar í ársreikningi Nathan og Olsen. Í ársreikningi Kolku segir að Brexit hafi einnig skapað ýmis vandræði í flutningum á vörum frá Bretlandi sem enn er verið að finna lausnir á.

Velta Emmessíss jókst um 11% á milli ára og nam nærri 1,4 milljörðum króna. Ígerðin hagnaðist um 65 milljónir árið 2021, samanborið við 49 milljónir árið áður. Kolka keypti hlut í Emmessís á árinu 2019 og á keypti út minnihlutaeigendur á síðast ári. Þá keypti samstæðan einnig helmingshlut á Huppu í byrjun síðasta árs.

Ekran, sem selur matvörur til stóreldhúsa, skilaði tæplega 178 milljóna hagnaði á síðasta ári en árið 2020 hafði fyrirtækið tapað tíu milljónum. Velta fyrirtækisins óx um 18% frá fyrra ári og nam 4,7 milljörðum króna.

„Mestur vöxtur var í matvælaiðnaði, veitingahúsum og skyndibitastöðum en vert er að nefna að hótelin tóku einnig vel við sér á þriðja ársfjórðungi. Á árinu tók félagið við vöruframboði Unilever Food Solutions sem hafði jákvæð áhrif á þurrvöru sölu félagsins og mun við njóta þess að fullu á komandi ári sem verður okkar fyrst heila ár í samstarfi,“ segir í ársreikningi Ekrunnar.