Helgi Bjarnason, forstjóri Vátryggingafélags Íslands (VÍS), hefur látið af störfum hjá félaginu að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Stjórn VÍS mun ráða nýjan forstjóra til félagsins á næstunni.
Guðný Helga Herbertsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu, mun taka tímabundið við starfi forstjóra VÍS. Stjórn félagsins segir að Guðný, sem hefur starfað hjá VÍS síðan 2016, hafi verið í leiðandi hlutverki í þróun félagsins á undanförnum árum.
„Það er mat stjórnar VÍS að nú sé rétti tíminn til að gera breytingar á hlutverki forstjóra og hefja nýjan kafla á þeim góða grunni sem lagður hefur verið. VÍS þarf að vera í sífelldu breytingaferli til þess að geta verið skrefinu á undan í þróun trygginga- og fjármálamarkaða á Íslandi. Forstjóraskipti nú eru hluti af því ferli,“ segir stjórn félagsins.
Stefna stjórnar marki kaflaskil
Stjórn VÍS segist hafa markað sér stefnu sem feli í sér kaflaskil í rekstri félagsins. Markmið stjórnarinnar sé að gera VÍS að vænlegri fjárfestingarkosti á markaði með skýrri sýn á vöxt, þróun og fjármagnsskipan.
„Liður í því er að gera félagið söludrifnara, efla tengsl við viðskiptavini og vera í fararbroddi við að innleiða nýjungar í tryggingastarfsemi. Samhliða stefnir VÍS á að verða virkur þátttakandi í þróun fjármálastarfsemi á Íslandi með áherslu á arðsaman vöxt, eignastýringu og ýmis önnur tækifæri sem hafa opnast á fjármálamarkaði.“
VÍS tilkynnti í september um stofnun eignarstýringarfélagsins SIV, sem er í meirihlutaeigu VÍS. Stjórnin segir að SIV muni hefja starfsemi á næstunni en eignarstýringarfélagið sé hluti af stefnumörkun sinni og fyrsta skrefið í að víkka út starfsemi félagsins á fjármálamarkaði.
„VÍS hefur undir forystu Helga Bjarnasonar gengið í gegnum miklar breytingar undanfarin ár. Helstu innviðir félagsins hafa verið uppfærðir eða endurnýjaðir, markvisst hefur verið fjárfest í upplýsingatækni og stafrænni þróun og býr félagið nú að öflugum kerfum sem auka hagkvæmni og öryggi í rekstri. Stjórnunarlegir innviðir félagsins hafa enn fremur verið styrktir verulega. Stjórnkerfi félagsins er til fyrirmyndar og áhersla lögð á fagmennsku á öllum sviðum.“
Viðskiptablaðið sagði frá því í síðustu viku að Skel fjárfestingarfélag og Sjávarsýn, fjárfestingarfélag Bjarna Ármannssonar, hefðu bætt við sig hlutum í VÍS í desembermánuði. Skel á nú 8,9% hlut í VÍS og Sjávarsýn 7,5% hlut. Einungis Gildi lífeyrissjóður fer með stærri hlut, eða 8,95%.