Ragnar Þór Ingólfsson hefur látið af formennsku í VR í ljósi þess að hann hlaut kjör á þing í þingkosningunum um helgina. Ragnar Þór hefur starfað sem formaður VR frá árinu 2017.
Halla Gunnarsdóttir, varaformaður VR, hefur tekið við sem formaður í samræmi við starfsreglur stjórnar félagsins. Hún muna gegna formennskunni út kjörtímabilið sem lýkur á aðalfundi félagsins í mars árið 2025.
„Ég kveð VR með bæði stolti og söknuði. Ég hef starfað með einstökum hópi bæði kjörinna fulltrúa og starfsfólks. Skrifstofa VR er afar öflug og sem formaður hef ég notið góðs af þeirri fagmennsku sem einkennir öll hennar störf. Ég ber fullt traust til sitjandi stjórnar félagsins og nýs formanns og óska þeim velfarnaðar í sínum störfum,“ segir Ragnar Þór í tilkynningu á vef VR.
Halla var tók við stöðu framkvæmdastjóra ASÍ árið 2020 en sagði starfi sínu lausu árið 2022 eftir að Drífa Snædal sagði af sér formennsku.
Halla starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu árinu 2003-2009 og var aðstoðarmaður aðstoðarmaður Ögmundar Jónassonar í heilbrigðisráðuneytinu og síðar í dómsmálaráðuneytinu á árunum 2009-2013. Hún starfaði um tíma á lögmannsstofunni McAllister-Olivarius í London, sem sérhæfir sig í málum er lúta að kynbundinni áreitni. Þá var hún ráðgjafi Katrínar Jakobsdóttur, þáverandi forsætisráðherra, í jafnréttismálum á árunum 2018-2020.
„Fyrir hönd bæði stjórnar og skrifstofu VR færi ég Ragnari Þór Ingólfssyni bestu þakkir fyrir hans störf í þágu félagsins sem spanna nær sextán ár. Hann hefur verið mjög ötull talsmaður launafólks og almannahagsmuna og verður það áfram í mikilvægum störfum á nýjum vettvangi. Ég tek við góðu búi og við munum halda sterkum tengslum til að vinna áfram saman að hagsmunum okkar félagsfólks. Ég óska Ragnari alls góðs í störfum sem hans bíða núna á nýkjörnu Alþingi,“ segir Halla.