Hlutabréfaverð Sýnar hefur lækkað um meira en helming frá því að fjárfestingarfélagið Gavia Invest keypti 12,7% hlut Heiðars Guðjónssonar, þáverandi forstjóra Sýnar, í fjarskipta- og fjölmiðlafélagsins fyrir 2,2 milljarða króna í júlí 2022.
Gengi hlutabréfa Sýnar var 64 krónur í umræddum viðskiptum. Hlutabréfaverð Sýnar hefur lækkað um 52,8% síðan þá og stendur nú í 30,2 krónum á hlut.
Alls keypti Gavia um 17,4% hlut í Sýn sumarið 2022. Heildarfjárfesting félagsins í hlutabréfum Sýnar var hátt í 2,8 milljarðar króna. Markaðsvirði eignarhlutar Gavia í Sýn nemur í dag 1,34 milljörðum króna.
Taldi Sýn verulega vanmetið
Í viðtali við Viðskiptablaðið í ágúst 2022 sagði Reynir Grétarsson, aðaleigandi Gavia, að Arion banki og Jón Skaftason – sem var fyrirsvarsmaður Gavia fyrst um sinn - hefðu leitað til hans og kynnt hugmyndir um að kaupa í Sýn og reyna að hámarka verðmæti hluthafa félagsins.
„Annaðhvort með því að koma markaðnum í skilning um hvað þetta er frábært fyrirtæki, sem við teljum það vera, eða þá að gera einhverjar breytingar.“
Reynir, sem er stofnandi og fyrrum forstjóri CreditInfo, sagðist hafa fylgst vel með rekstri Sýnar í langan tíma og undrast að félagið væri ekki metið hærra af markaðnum.
„Það er svo mikið af flottum eignum og rosalegur mannauður í þessu fyrirtæki. Vodafone er flaggskipið en það eru miðlar þarna eins og Vísir og Bylgjan til dæmis sem eru yfirburðar miðlar á sínu sviði. Að ógleymdum innviðaeignum félagsins en innviðir eiga með réttu að njóta hárrar verðlagningar á markaði.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaði vikunnar. Fjallað er ítarlega um fjárfestingu Gavia í Sýn árið 2022 og helstu breytingar í rekstri Sýnar síðan þá.