Eignarhaldsfélagið Kolka, aðaleigandi Emmessís, greiddi 160 milljónir króna fyrir helmingshlut í Huppuís. Þetta kemur fram í ársreikningi Kolku, sem er móðurfélag 1912 ehf. sem á heildsölurnar Nathan & Olsen og Ekruna ásamt Emmessís.
Félagið er í eigu systkinanna Ara og Bjargar Fenger og móður þeirra, Kristínar Fenger. Kolka skrifaði undir kaupin á hlut í Huppu í janúar 2021. Samkeppniseftirlitið heimilaði kaupin á vormánuðum 2021, en Huppa og Emmessís hafa frá upphafi átt í samstarfi um framleiðslu á ísnum sem Huppa selur.
Ísbúð Huppu var stofnuð á Selfoss árið 2013 af vinkonunum Telmu Finnsdóttur og Eygló Rún Karlsdóttur og mökum þeirra, þeim Gunnari Má Þráinssyni og Sverri Rúnarssyni. Síðan þá hafa umsvif ísbúðarinnar aukist til muna og er Huppuís orðin stærsta ísbúðakeðja landsins. Áttunda ísbúð Huppu var opnuð á Seltjarnarnesi í byrjun árs.