Lykillinn að velgengni Bónuss er lág álagning og mikið kostnaðaraðhald. Með því að halda í sömu grunngildin frá stofnun hefur aldrei myndast fita í rekstrinum,“ segir Guðmundur Marteinsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Bónuss. Guðmundur byrjaði að vinna hjá Bónus sumarið 1992 og varð framkvæmdastjóri árið 1998 en hætti nú um áramótin.
„Þegar Jón Ásgeir ræður mig sem framkvæmdastjóra þá fékk ég í veganesti frá honum þrjú megingildi sem ég mátti ekki hvika frá,“ segir Guðmundur í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið.
„Í fyrsta lagi að ég væri ekki ráðinn til að finna upp hjólið, þeir feðgar væru búnir að því. Í öðru lagi að skila til neytenda hluta af þeim ábata sem næðist með bættum innkaupum og loks að gefa aldrei eftir lægsta verð. Ég tók þessi gildi mjög alvarlega og þau hafa verið minn vegvísir í þau 25 ár sem ég hef stýrt Bónus. Yfirbyggingin hjá Bónus er nokkurn veginn sú sama í dag með 33 búðir og hún var þegar búðirnar voru 4. Þar af leiðandi þegar birgjarnir okkar koma hingað í Skútuvoginn með reikningana sjá þeir að það er ekki verið að eyða í einhvern óþarfa. Ég er ekki frá því að það hafi hjálpað til þegar samið var við birgja um betri kjör.“
„Einn hótaði nú að láta reka mig“
Bónus hefur frá upphafi boðið sama verð í öllum sínum verslunum um allt land. Guðmundur segist hafa þurft að berjast fyrir þeirri stefnu.
„Það hafa komið hingað inn hluthafar sem hafa viljað breyta henni og hækka verð í búðunum á landsbyggðinni og einn hótaði nú að láta reka mig ef þessu yrði ekki breytt. Ég benti honum góðfúslega á það að flestallar landbúnaðarvörur sem seldar eru í Bónus væru að mestu framleiddar úti á landi, þannig að í raun ættu þær að vera ódýrari úti á landi en í höfuðborginni. Sá hluthafi stoppaði stutt.“
Nánar er rætt við Guðmund Marteinsson, fráfarandi framkvæmdastjóra Bónus, í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.