Reitir og Íslandshótel hafa undirritað leigusamninga til 17 ára um hótelin Hilton Reykjavik Nordica og Reykjavík Natura. Í tilkynningu Reita til Kauphallarinnar kemur fram að Íslandshótel taki við rekstrinum þann 1. október nýti núverandi leigutaki, Berjaya Hotels Iceland, sér ekki forleigurétt sinn.

Áætla Reitir að aukning tekna og rekstrarhagnaðar vegna leigusamninganna verði um 620 milljónir króna á fyrstu tveimur og hálfa ári leigutímans en um 720 milljónir eftir það.

Samtals eru hótelin um 26.500 fermetrar að stærð, með um 470 hótelherbergi. Þetta eru rótgróin hótel í Reykjavík. Hilton Reykjavik Nordica nefndist áður Hótel Esja og Reykjavík Natura nefndist Hótel Loftleiðir.

Reitir, í samvinnu við Íslandshótel, munu ráðast í endurbætur á hótelunum og er framkvæmdakostnaður Reita vegna þeirra áætlaður um þrír milljarðar króna. Endurbæturnar munu standa yfir í tvö og hálft ár og felast þær meðal annars í því að stór hluti af hótelherbergjum verður endurnýjaður.

Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita:

Við erum virkilega ánægð að fá Íslandshótel sem samstarfsaðila vegna tveggja lykilhótela á höfuðborgarsvæðinu. Fjölmörg tækifæri felast í markvissum endurbótum sem munu skila ávinningi til beggja aðila auk þess að bæta upplifun framtíðargesta hótelanna.