Meðalnýting herbergja á hótelum á Suðurlandi í sumarmánuðunum júní, júlí og ágúst var 88,8%. Svo há hefur nýtingin ekki áður mælst á Suðurlandi en fyrra met var frá því í fyrra en þá var meðalnýtingin 87,3%.
Nýtingin var sú sama á Austurlandi og Suðurlandi, 88,8% en það var metjöfnun á Austurlandi en sama nýting var á Austurlandi í fyrra.
Nýtingin var mjög góð í sumar á öllum svæðum landsins og má rekja það til mikillar fjölgunar erlendra ferðamanna. Þannig var nýtingin mjög nálægt fyrri metum á flestum stöðum utan Suðvesturhornsins, þ.e. höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Nýtingin á Suðvesturhorninu var nokkuð frá fyrri metum á því svæði.
Nýtingin minnst á höfuðborgarsvæðinu
Nýtingin var minnst á höfuðborgarsvæðinu en hún var að meðaltali 84,5%. Í gegnum árin hefur höfuðborgarsvæðið, ásamt Suðurnesjum, verið leiðandi í nýtingu hvort sem um hefur verið að ræða sumar eða aðra tíma ársins.
Sé litið framhjá árunum 2020 og 2021 þegar ferðamennska var í lágmarki hefur það ekki áður gerst að herbergjanýtingin væri ekki í fyrsta eða öðru sæti á höfuðborgarsvæðinu.