Herdís Steingrímsdóttir, meðlimur í peningastefnunefnd Seðlabankans, vildi að stýrivextir yrðu hækkaðir meira en gert var á síðasta fundi peningastefnunefndar í febrúar eða um 0,75% í stað 0,5%.

Þetta kemur fram í fundargerð peningastefnunefndar Seðlabankans 6. og 7. febrúar. Nefndin hefur hækkað stýrivexti ellefu vaxtaákvörðunarfundi í röð, úr 0,75% í 6,5%.

Allir nefndarmenn voru þeirrar skoðunar að hækka þyrfti vexti bankans enn frekar og rætt var um hækkun á bilinu 0,5-1 prósenta. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri lagði til að vextir bankans yrðu hækkaðir um 0,5 prósentur. Allir nefndarmenn studdu tillögu seðlabankastjóra en eins og áður segir vildi Herdís sjá 0,75 prósentu vaxtahækkun.

Þá kom fram á fundinum að nefndin teldi líklegt að auka þyrfti aðhaldið enn frekar á næstunni til að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma.

Tók við af Katrínu Ólafsdóttur

Herdís, sem er dósent í hagfræði við Copenhagen Business School, tók sæti í nefndinni í stað Katrínar Ólafsdóttur, dósent í hagfræði við HR, fyrir tæplega ári síðan. Katrín hafði þá setið í nefndinni í tíu ár, sem er hámarksskipunartími í nefndinni.

Herdís var skipuð til næstu fimm ára af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Hún er með doktorspróf í hagfræði frá Colombia háskólanum í New York og meistarapróf í stærðfræðilegri hagfræði og hagrannsóknum frá London School of Economics. Rannsóknir hennar snúa að vinnumarkaðshagfræði, líkt og Katrín Ólafsdóttir hefur sérhæft sig í, og er sögð margverðlaunuð fyrir störf sín.

Þá er Herdís meðlimur og umsjónarmaður ýmissa rannsóknasetra í Kaupmannahöfn sem greina hagfræðileg úrlausnarefni á borð við lífeyrismál, ójöfnuð og hagfræði heimilanna.