Félag viðskipta- og hagfræðinga hefur veitt Hermanni Haraldssyni nafnbótina viðskiptafræðingur ársins 2022. Hermann er forstjóri netverslunarinnar Boozt.com, stærstu netverslunar Norðurlandanna sem selur meðal annars snyrtivörur, heimilisbúnað, íþrótta- og tískufatnað.

Netverslunin hóf að selja til Íslands á síðasta ári og náði á skömmum tíma að afla sér mikilla vinsælda, en verslunin seldi Íslendingum fyrir tæpan milljarð á tímabilinu frá júlí til desember 2021.

Sjá einnig: Hlykkjótt vegferð Boozt til vaxtar

Hermann ræddi við Viðskiptablaðið í febrúar um vegferð Boozt frá því að hann tók við stjórnartaumunum árið 2010, þremur árum eftir stofnun fyrirtækisins. Markaðsvirði þess í dag nemur 174 milljörðum íslenskra króna en Boozt er skráð á markað í Svíþjóð og í Danmörku.

„Innkoma Boozt.com hefur ekki farið framhjá neinum og er sá árangur sem netverslunin hefur náð undaraverður. Hermann hefur leitt fyrirtækið allt frá stofnun og verið lykilmaður í þeirri hugmyndafræði sem fyrirtækið byggir á. Hann hefur á tíma þurft að sýna eljusemi og þrautsegju þegar kemur að rekstri fyrirtækisins og þurft að leggja allt undir til að sjá fyrirtækið ná árangri. Það er eimitt sú eljusemi og þrautsegja sem dómnefnd telur að vert sé að verðlauna fyrir“ segir í mati dómnefndar.

Velta verslunarinnar nam 80 milljörðum króna á síðasta árið og jókst um 32% á milli ára. Félagið hefur skilað hagnaði frá árinu 2016 en hagnaður ársins 2020 nam um 1,9 milljörðum íslenskra króna. Þá hefur gengi hlutabréfa fyrirtækisins þrefaldast frá því Covid skall á árið 2020.

„Ég er mjög þákklátur fyrir þá viðurkenningu sem felst í verðlaununum. Allt frá upphafi var það draumur minn að geta boðið þjónustu Boozt á Íslandi fyrir fjölskyldu mína og aðra Íslendinga. Á síðasta ári varð sá draumur minn loks að veruleika. Það hefur komið okkur skemmtilega á óvart hversu vel hefur verið tekið á móti Boozt á Íslandi og hversu vel hefur gengið. Ég lít á verðlaunin jafnt sem viðurkenningu til mín og til fyrirtækisins sjálfs“ segir Hermann .

Í dómnefnd sátu Telma Eir Aðalsteinsdóttir framkvæmdastjóri FVH ásamt stjórn FVH en hana skipa Lára Hrafnsdóttir formaður, Tryggvi Másson varaformaður, Bjarni Herrera, Gylfi Þór Sigurðsson, Harpa Rut Sigurjónsdóttir, Hálfdán Steinþórsson, Hjalti Harðarsson, Rut Kristjánsdóttir, Þórarinn Hjálmarsson og Þórunn Helgadóttir.