Samtök iðnaðarins (SI) gjalda varhug við áætlun stjórnvalda um að skatttekjur hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu fari hækkandi samkvæmt fjármálaáætlun.
Samtökin segja skattahækkanir geta grafið undan verðmætasköpun, dregið úr atvinnu og þar með rýrt skattstofna og tekjur hins opinbera.
SI segja í umsögn við fjármálaáætlun fyrir árin 2026-2030 að Ísland sé nú þegar háskattaríki í alþjóðlegum samanburði. Skatttekjur hins opinbera námu 32% af landsframleiðslu árið 2022, sem og var það hátt í samanburði við önnur OECD-ríki.

Ný fjármálaáætlun, sem fjármálaráðherra kynnti í lok mars, gerir ráð fyrir að skatttekjur hækki í 34% af landsframleiðslu á tímabili stefnunnar.
„Slíkur skattþungi er ekki í samræmi við markmið um aukna verðmætasköpun og framleiðnivöxt, og getur dregið úr hvata til nýsköpunar og fjárfestinga. SI telja að skattahækkanir sem vinna gegn virkni og samkeppnishæfni atvinnulífsins séu ekki í samræmi við sjálfbærni í opinberum fjármálum til lengri tíma,“ segir í umsögninni.

SI fagna hins vegar áherslum á þætti fjármálaáætlunarinnar sem renna stoðum undir samkeppnishæft starfsumhverfi. Samtökin segja að með áherslu á samkeppnishæft starfsumhverfi skapi stjórnvöld forsendur fyrir aukinni framleiðni sem skilar sér í auknum lífsgæðum landsmanna.