Hið opinbera verður að hætta að vera Þrándur í Götu nýsköpunar með því að hanna sífellt innanhúss kerfi sem kæfa sprota í fæðingu. Í þokkabót séu kerfin sjaldnast hönnuð með þarfir notandans í huga. Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur, stofnanda Köru Connect, á fundi SA og SVÞ um framtíð heilbrigðiskerfisins.
„Hugsið ykkur bara hvað hefur gerst í símanum ykkar. Við erum með forrit þar sem við, neytandinn, erum í fyrsta sæti hvað varðar tónlist, bækur og hvað eina. Það er búið að búa til kerfi fyrir ykkur en ekki bara verið að hugsa um skrifstofuna og kerfin hjá fyrirtækjunum. Hjá hinu opinbera eru aftur á móti gríðarleg tækifæri til að samtímis bæta þjónustu við þau sem þurfa á henni að halda, nýta dýrmætan tíma fagfólks betur og fá líka upplýsingar um hvernig eigi að forgangsraða,“ sagði Þorbjörg Helga í tölu sinni.
- Sjá einnig: LSH nálarauga fyrir sprota í heilsutækni
Það blasir við að með auknum lífslíkum og lægri fæðingatíðni mun aldurspíramídi þjóðarinnar taka talsverðum breytingum á næstu árum. Með öðrum orðum þá verða færri einstaklingar til að standa undir samneyslunni en samtímis er viðbúið að kostnaður muni aukast sökum hærri aldurs. Að mati Þorbjargar væri því að óbreyttu viðbúið að ákveða þyrfti hvar yrði að skera niður.
„Með tækninni getum við breytt þessu mjög mikið. Sem stendur eru peningarnir bara settir hingað eða þangað en við höfum ekki upplýsingar eða gögn um hvort þjónustan skilaði árangri. Þær tölur eru einfaldlega ekki til. Það gildir um heilbrigðiskerfið, menntakerfið, almannatryggingakerfið, þetta er hálfgert svarthol. Það er ekki til næg tölfræði til að taka þá mikilvægu stefnubreytingu að setja notandann í fyrsta sæti,“ sagði Þorbjörg Helga.
Láta eins og við séum í samkeppni
Meðal áhrifa faraldursins er að aukið fjármagn hefur verið sett í þróun á tæknilausnum í heilbrigðisgeiranum og veitingu fjarheilbrigðisþjónustu. Hér innanlands hefur verið nýsköpun í gangi en sprotunum hefur gengið erfiðlega að fá frjósama mold til að geta blómstrað. Stærsta ljónið í veginum hafi reynst hið opinbera.
„Ég tala ekki aðeins fyrir mína hönd, heldur fyrir hönd margra sprota, þegar ég segi að við höfum öll lent í sömu baráttu og mörg þeirra eru við það að gefast upp. Alls staðar koma þau að hindrunum og lokuðum dyrum,“ sagði Þorbjörg Helga.
Einu aðilarnir sem sprotum bjóðist að semja við séu í einkageiranum því opinberi geirinn loki á þau. „Ríkiskaup boðuðu eitt útboð sem ætlað var sprotum. Það hefur verið fast þar í eitt ár. Við vitum öll að sprotar lifa í mesta lagi í þrjú ár án þess að fá eitthvað. Alls staðar fást sömu svörin. Virk, Landlæknir, Tryggingastofnun, þau ætla að forrita sín kerfi sjálf. Við fáum nýsköpunarstyrki til að þróa verkefni en síðan er hið opinbera að forrita sjálft sömu hluti eins og við séum í samkeppni. Hver á eiginlega að stoppa svona rugl?“
Að mati Þorbjargar Helgu er framtíðin, þrátt fyrir þetta, spennandi og skemmtileg. Með tækninni sé hægt að breyta hinu opinbera úr einhverju sem sé hugsað fyrir hið opinbera og láta það þess í stað vinna fyrir notanda þjónustunnar. Augljós sóun felist hins vegar í því að allir ætli að gera sitt í sínu horni og útbúa sitt eigið kerfi sem sé ófært um að tala við önnur kerfi.
„Ég held ykkur gæti þótt gaman að sjá hvaða tækifæri felast í því að brjóta þetta upp með tækninni. Ég býð mig fram til að tala betur við ykkur um málefnið,“ sagði Þorbjörg Helga.