Rúmt ár er síðan bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Bain Capital gerði samkomulag við Icelandair um að kaupa stóran hlut í flugfélaginu fyrir rúma átta milljarða króna á genginu 1,43 krónur á hlut í formi nýs hlutafjár. Bain Capital, sem er stærsti hluthafi Icelandair með 15% hlut, fékk einnig áskriftarréttindi fyrir um 3,6% hlut. Fjárfestingarsjóðurinn vildi ekki gefa upp hvort hann hyggist nýta áskriftarréttindin í svari við fyrirspurn Túrista.

Heimildin á áskriftarréttindunum mun gilda í tíu daga frá og með birtingu næsta uppgjörs, fyrir annan ársfjórðung 2022. Ef af þessum viðskiptum verður þá fara þau fram á genginu 1,64 krónur á hlut en markaðsverð á hlutabréfum Icelandair stendur nú í 1,41 og er því um 16% lægra en innlausnarverðið. Icelandair myndi fá 2,3 milljarða króna í formi nýs hlutafjár ef Bain ákveður að nýta réttindin.

Í svari við fyrirspurn Túrista vildu forsvarsmenn Bain Capital ekki gefa upp hvað þeir hyggjast gera varðandi áskriftarréttindin. Fjárfestingarfélagið segist þó styðja Icelandair.

„Við styðjum með afgerandi hætti fyrirtækið, stjórnendateymi þess og langtíma stefnumótun. Við eru mjög eftirvæntingarfull varðandi framtíð félagsins og vaxtarmöguleika,“ segir í svarinu.

Matthew Evans, framkvæmdastjóri hjá Bain Evans, var kjörinn í stjórn Icelandair sumarið 2021. Hann kom inn í stjórnina fyrir Úlfar Steindórsson sem hafði þá setið í stjórninni í áratug.