Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, er mjög hlynntur því að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram á sínum stað næstu árin. Ef færa á flugvöllinn þá verði arftaki hans helst að geta hýst bæði innanlands- og millilandaflug. Hvassahraun verður sífellt óraunhæfari valkostur eftir því sem fjárfest er meira í Keflavíkurflugvelli að mati Boga sem var gestur í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark.
„Ef það væri völlur sem væri bæði innanlands- og millilandaflugvöllur, þá væri það held ég ágætis kostur,“ sagði Bogi. „Ég held að sá kostur – ef ég tala út frá minni skoðun, horfandi á stöðuna – að það verður alltaf óraunhæfara eftir því sem við fjárfestum meira í Keflavík, að millilandaflugið færist eitthvað annað. Að færa innanlandsflugið frá Reykjavík, einhvert annað en saman við millilandaflugið - það finnst mér ekkert sérstaklega góð hugmynd.“
Hann telur jafnframt að það gangi ekki upp að færa innanlandsflugið alfarið til Keflavíkur. Afleiðingin verði sú að það muni að stórum hluta leggjast af og nefnir sem dæmi flug til og frá Akureyri.
„Ég segi bara hiklaust já við Reykjavíkurflugvöll vegna þess að fólk úti á landi þarf að sækja hingað mjög mikla þjónustu. Það er líka frábært fyrir okkur sem búum hér á höfuðborgarsvæðinu að geta bara stokkið niður á Reykjavíkurflugvöll og vera komin til Akureyrar eða Egilsstaða innan við klukkutíma frá því að þú mætir á flugvöllinn.“
Bogi segir að Icelandair hafi fyrir rúmum áratug rýnt í aðra valkosti fyrir flugvelli á höfuðborgarsvæðinu. Á þeim tíma leist honum mjög vel á að hugmyndina um að byggja upp nýjan flugvöll í Hvassahrauni, þá fyrir bæði millilanda- og innanlandsflug.
„Tækifærin sem við sáum var að spara ferðatíma [til og frá Keflavíkur]. Það væri mjög hagkvæmt fyrir íslenskt hagkerfi. Svo líka að geta tengt þetta betur saman á einum velli með hagkvæmum hætti, allt innanlands- og millilandaflug, tiltölulega stutt frá höfuðborgarsvæðinu. Við sáum tækifæri í því.“
Röng forgangsröðun
Hann útilokar þó ekki að Reykjavíkurflugvöllur yrði færður í framtíðinni og að nýr flugvöllur yrði ekki með millilandaflug.
„En það er bara svo margt í innviðum á Íslandi sem þarf að laga í dag. Við erum eftir á mjög víða í uppbyggingu innviða að mínu mati. Við erum með innanlandsflugvöll sem virkar vel fyrir bæði höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina. Að setja fókus á það akkúrat núna á næstu örfáum árum að fjárfesta í nýjum innanlandsflugvelli - mér fyndist það mjög röng forgangsröðun í innviðauppbyggingu landsins til skemmri tíma að fara að ráðast í þá miklu uppbyggingu.“
Bogi var þá spurður hvort það væri þá ekki þörf á að Icelandair myndi leggja sitt að mörkum til að „pumpa upp“ Reykjavíkurflugvöll sem væri kominn til ára sinna. Bogi tók undir það og sagði að félagið myndi ekki hika við að fjárfesta í innviðunum á svæðinu. Það væri hins vegar óskynsamlegt fyrir Icelandair á meðan óvissa ríkir um framtíð flugvallarins.
„Þess vegna væri mjög gott að fá langtímastefnu og skýra framtíðarsýn í þessu. Hefja þá þessa uppbyggingu [við Reykjavíkurflugvöll], þó það sé ekki til næstu fimmtíu ára en allavega eitthvað sem gæti staðið þarna í fimmtán ár.“
Hollt að fá inn erlenda fjárfesta
Spurður hvort einkavæða ætti Keflavíkurflugvöll svarar Bogi að hann myndi vilja sjá erlenda fjárfesta koma að rekstri og uppbygginu flugvallarins. Ásamt því að fá inn þekkingu myndi slík fjárfesting hafa í för með áhættudreifingu.
„Við þurfum ekki alltaf að finna upp hjólið hérna á Íslandi, við getum bara horft á hvernig hlutirnir eru úti í heimi og hvar þeir ganga vel. Við höfum séð mörg dæmi um það á flugvöllum úti í heimi að einkavæðing, eða einkavæðing að hluta, hefur gengið mjög vel. Ég tel að það væri mjög hollt fyrir okkur Íslendinga að skoða það mjög alvarlega að fá að erlenda fjárfesta, helst með sérþekkingu í svona rekstri.“