Breki Karlsson, formaður Neytendasamtaka, beinir því til neytenda að fylgjast vel með verðþróun í aðdraganda Black Friday en samtökin fá reglulega tilkynningar um að verslanir búi til gerviafslætti fyrir slíka tilboðsdaga.
Hann segir að ef verslun auglýsir til að mynda 20% afslátt verði hún að sanna að hún hafi selt vöruna á því verðlagi sem það var fyrir afslátt.
„Neytendasamtökin fá hins vegar í kringum 10-15 tilkynningar á hverju ári um verslanir sem hunsa þessa reglugerð. Það náttúrulega á ekki að eiga sér stað en við beinum því bara til yfirvalda og hikum ekki við að nafngreina verslanir sem stunda þetta.“
Breki vitnar í rannsókn sem var nýlega gerð af systursamtökum Neytendasamtakanna í Bretlandi sem sýndi fram á að í 98% tilvika voru Black Friday tilboðin ekki þau ódýrustu yfir árið. Verðlag var skoðað sex mánuðum fyrir föstudaginn og sex mánuðum eftir og voru verslunarkeðjur á borð við Amazon, Argos, John Lewis og Boots teknar fyrir.
„Það væri mjög áhugavert að skoða það hér á landi en á Íslandi er aðeins ein verslun sem sýnir verðsögu allra vara og það er Elko. Þar er hægt að sjá og sannreyna hvort varan sé á raunverulega góðu verði eða ekki.“
Samkvæmt evrópskum neytendalögum verða verslanir sem auglýsa tilboð að sanna það að verðið sem strikað er út sé lægsta verðið sem sú verslun hefur selt þá vöru á síðastliðna 30 daga. Lögin hafa ekki enn verið innlimuð á Íslandi en Breki segir að verið sé að breyta því.
„Það er verið að endurskoða markaðssetningarlögin núna og ráðherra er til að mynda búin að tilkynna að hún ætli að leggja þau fram í febrúar. Þannig við bíðum bara spennt eftir því að sjá þetta í samráðsgátt á næstu vikum,“ segir Breki